132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[10:49]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil hér gera grein fyrir atkvæðum Samfylkingarinnar við afgreiðslu þessa máls.

Samfylkingin leggst gegn því frumvarpi til vatnalaga sem hér er til afgreiðslu og flytur tillögu ásamt öðrum í minni hluta iðnaðarnefndar um að frumvarpinu verði vísað frá. Sú tillaga byggir á þeirri skoðun okkar að markmiðssetningin í frumvarpinu sé röng og þau eignarréttindi yfir vatni sem fylgja landareign séu rangt skilgreind. Vatn er einhver mikilvægasta auðlind jarðar og mikilvægi þess mun aukast verulega þegar til framtíðar er litið.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir leggur megináherslu á einkaeignarréttinn á vatni en ekki að sama skapi á almannaréttinn og umhverfisréttinn. Réttur almennings er fyrir borð borinn í þessu frumvarpi. Núgildandi vatnalög frá 1923 voru byggð á víðtækri pólitískri sátt á Alþingi og miklum og góðum undirbúningi. Einmitt þess vegna hafa þau lög enst okkur núna í rúm 80 ár.

Í meðferð þessa máls hefur engin tilraun verið gerð af hálfu stjórnarliða til að ná pólitískri sátt um það frumvarp sem hér er til afgreiðslu, heldur hefur ríkisstjórnin látið í hendur lögfræðinga að móta stefnuna um eignar- og nýtingarrétt á vatni.

Við mótmælum þessu harðlega. Samfylkingin mun því greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild sinni sem og einstökum greinum þess en sitja hjá við tímasetningu gildistökunnar í samræmi við það samkomulag sem um hana var gerð við forsætis- og iðnaðarráðherra. Frestun á gildistöku gefur okkur tækifæri til að breyta þessum lögum að afloknum kosningum og það munum við að sjálfsögðu gera.