132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[10:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Árið 1923 ákvað Alþingi Íslendinga að eignarréttur tengdur vatnsréttindum, skyldi fylgja fasteign, landareign. Þetta hefur síðan verið staðfest á þeim 83 árum sem liðin eru síðan, í fjölda hæstaréttardóma.

Með því frumvarpi sem nú kemur til atkvæða er eignarrétturinn staðfestur og skýrður með að hverfa frá hinni svokölluðu jákvæðu skilgreiningu eignarréttar til hinnar neikvæðu skilgreiningar. Allir fræðimenn á sviði eignarréttar eru sammála um að hér er eingöngu um formbreytingu að ræða en ekki efnisbreytingu.

Á fyrri stigum umræðunnar var því haldið fram að með frumvarpinu væri vegið að almannaréttinum. Til að hnykkja enn fremur á því að svo er ekki var sett inn í greinargerðartexta að almannaréttur sem gilt hefði hingað til héldist óhaggaður. Eftir fyrirlestur sem Karl Axelsson, einn höfunda frumvarpsins, hélt í Háskóla Íslands síðastliðinn föstudag um vatnalagafrumvarpið nefndi hann í framhjáhlaupi Kárahnjúkavirkjun, þá gripu stjórnarandstæðingar það hálmstrá.

Frumvarpið felur í sér almennar réttarreglur um vatnsréttindi og því er ekki ætlað að hafa nein sértæk áhrif varðandi framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun. Þær fara fram í samræmi við núgildandi lög og reglur. Auk þess má nefna að nú hefur verið ákveðið að fresta gildistöku laga þessara fram yfir að starfsemi við Kárahnjúkavirkjun hefst. Það segir kannski meira en mörg orð um hversu fáránlegt útspil stjórnarandstöðunnar var.

Öllum má vera ljóst að á þeim 83 árum sem liðin eru frá setningu vatnalaga hefur þjóðfélag okkar gjörbreyst. Því er með þessu frumvarpi öll stjórnsýsla einfölduð og færð til nútímahorfs.

Að síðustu, hæstv. forseti, hefur því verið haldið fram að hér sé verið að einkavæða vatn. Ef það að vatnsréttindi geti verið í einkaeign, telst einkavæðing, þá fór hún fram árið 1923.

Hæstv. forseti. Ég þarf kannski ekki að taka það fram að ég styð þetta frumvarp.