132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[11:08]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í þessari markmiðsgrein frumvarpsins eru afar matskennd hugtök. Hér er talað um skynsamlega vatnsnýtingu og hagkvæma, hér er talað um sjálfbæra nýtingu vatns og hér er talað um að við nýtingu vatnsréttinda megi ekki raska lífríki, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.

Þegar höfundur frumvarpsins var sl. föstudag spurður um þessi matskenndu hugtök, sem eru afar óvinsæl í lögum, svaraði hann svona, frú forseti: „Ef ég hefði mátt ráða stæði hér eingöngu í markmiðssetningunni: Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni.“ Þetta er auðvitað mergurinn málsins. Þetta er hið rétta andlit ríkisstjórnarinnar. Frjálshyggjan og einkaeignarréttarsinnarnir vilja auðvitað bara að skýrt sé kveðið á um í lögum um einkaeignarrétt varðandi vatn. Það er það sem stjórnarandstaðan mótmælir. Það er það sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur ekki fellt sig við. Hér er um að ræða skerðingu á almannarétti og yfirgang frjálshyggjunnar. Ég segi nei.