132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[11:13]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur vakið mikla athygli mína í þessu máli, sem fyrst og fremst snýst um pólitík, þ.e. hvaða afstöðu menn hafa til eignarréttarins þegar kemur að vatni, hvort menn fylgja fullkomnum séreignarrétti eða þeim rétti sem vatnalögin hafa skilgreint frá upphafi. Og það hefur vakið mikla furðu mína í þessari umræðu í þinginu að sjálfstæðismenn, sem gefa sig út fyrir að vera sérstakir séreignarsinnar, skuli ekki hafa treyst sér til að stíga fram og fullyrða að hér sé verið að einkavæða vatnið í samræmi við lífsskoðanir þeirra. Þess í stað hafa þeir falið sig bak við Framsóknarflokkinn í þessari umræðu, komið fram og tiltekið einhverja lögfræðinga, að einhverjir dómar hafi fallið sem geri það að verkum að þeim sé nauðugur einn kostur að einkavæða vatnið. Þeir hafa ekki treyst sér til að koma fram og segja: Þetta er það sem við viljum.

Hins vegar er ég algerlega andvígur þessari skoðun, enda segir höfundur laganna í grein sem hann ritaði: „Með þessu er verið að (Forseti hringir.) hverfa frá ófullkomnum eignarrétti til fullkomins.“ Það er ekki það sem ég vil sjá sem eignarrétt á vatni. Þess vegna segi ég nei.