132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:35]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að hv. þingmenn …

(Forseti (JóhS): Viljið þið gefa hv. ræðumanni hljóð.)

Ég óska eftir því að hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hafa haft sig nokkuð í frammi við umræðuna hér undanfarið verði gert viðvart um að ég ætla að ræða hlut þeirra hér í umræðunni, þar á ég við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson (Gripið fram í.) og einnig (Gripið fram í.) vil ég nefna hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson í þessu sambandi og hæstv. forsætisráðherra reyndar líka. Ég ætla að víkja aðeins að hlut þessara hv. þingmanna í þeim málum sem eru hér á borðum Alþingis.

(Forseti (JóhS): Forseti gerir ráðstafanir til þess að þeir tveir hv. þingmenn sem ræðumaður nefndi geti verið viðstaddir umræðuna og einnig hæstv. forsætisráðherra.)

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram mikilvæg umræða um auðlindir, um vatn á Íslandi. Þessi umræða er hluti af umræðunni um auðlindir í landinu og hvernig fara skuli með þær. Ég held að það verði eitt aðalmál, ef ekki aðalmál næstu kosninga hvernig farið verður með þessar auðlindir, hvernig stjórnvöld standa að þeim málum og hvernig þau stjórnvöld sem hafa haft völdin undanfarin ár hafa staðið að þessum málum.

Samfylkingin hefur barist fyrir því að þessi mál kæmust á dagskrá. Við höfum tekið þátt í andófi gagnvart þeim málum sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur borið hér fram. Okkur tókst ásamt stjórnarandstöðunni að vinna ákveðinn sigur þegar hæstv. iðnaðarráðherra kom hér með mál tengt auðlindum, breytingar á lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu í vetur. Það endaði með því að hæstv. iðnaðarráðherra ákvað að setja á fót nefnd, skipa nefnd sem á að fara yfir það hvernig auðlindum skuli skipað í framtíðinni, bæði framtíðarauðlindastjórnunina og líka hvað varðar aðgang aðila sem fá tækifæri til að nýta auðlindirnar.

Nú ber svo við að í þessari umræðu hefur það náðst að hæstv. iðnaðarráðherra mun skipa aðra nefnd sem á að fjalla um vatnið. Allir vita að nú er að störfum nefnd til þess að endurskoða stjórnarskrána og koma með tillögur um breytingar á henni. Það var sannarlega Samfylkingin sem átti stóran hluta að því að sú endurskoðun fór fram sem tengdist auðlindanefnd á sínum tíma, en það var tillaga sem unnin var undir forustu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Allt þetta leiðir vonandi til þess að Framsóknarflokkurinn snýr til baka úr herleiðingunni undir forustu hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar, reyndar fyrst undir forustu hæstv. fyrrverandi ráðherra Finns Ingólfssonar og svo undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur hefur Framsóknarflokkurinn verið notaður til þess að vinna að innleiðingu frjálshyggjunnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í raun og veru notað þennan flokk til þess að koma hugarórum sínum um endimörk frjálshyggjunnar til framkvæmda. Að endingu á það að vera punkturinn yfir þetta ferðalag að vatnið, hver einasti dropi sem til jarðar fellur hér í landi eigi um leið og hann snertir jörðina að vera séreign einhvers aðila í landinu. (Gripið fram í: Mátturinn í einkavæðingunni.)

Ég held að það sé ekki hægt að komast lengra og ég held að ef menn fara að líta þeim augum á eignarhald, að það geti orðið séreignarhald á vatni eða viðlíka réttindum eins og þeim að nýta vatn þá hljóti menn að spyrja eins og við höfum gert í þessari umræðu hvort það sé ekki komið að því að loftið komi líka inn í umræðuna, hver eigi að eiga það og hvort það eigi þá að vera séreign líka.

Hæstv. forseti. Með þessu frumvarpi til vatnalaga er ætlunin að einkavæða allt vatn á Íslandi nema það sem til er í þjóðlendum eða fasteignum opinberra aðila. Í gildandi vatnalögum var hins vegar sú leið valin að afmarka réttindi manna til vatnsnýtingar með skýrum hætti, séreign manna á vatni var hafnað, eins og þingmaðurinn Sveinn frá Firði sagði hér á Alþingi. Sá þingmaður hefur verið hreinskiptinn og heiðarlegur og ég votta honum virðingu mína fyrir það.

Hv. þm. Pétur Blöndal, er hann í húsi?

(Forseti (JóhS): Hv. þm. Pétur Blöndal er í húsi, já.)

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að honum verði líka gert viðvart vegna þess að ég ætla aðeins að nefna hlut hans í umræðunni.

(Forseti (JóhS): Það verður gert.)

Eins og ég sagði áðan þá var séreign manna á vatni hafnað og þingmaðurinn Sveinn frá Firði sagði það hér á Alþingi. Það vottar fyrir sams konar heiðarleika hjá einum þingmanni sem hefur verið hér í sölum Alþingis. Það er hv. þm. Pétur Blöndal. Hann sagði í gær í andsvari að bóndinn væri að eignast vatnið og spurði hv. þm. Sigurjón Þórðarson hvort hann væri á móti því að bændur fengju meiri einkaeign. Pétur Blöndal skilur þessa lagasetningu nefnilega öðruvísi, eða annaðhvort gerir hann það eða hann er sá eini sem er hreinskilinn af þingmönnum stjórnarliða hér í umræðu. Hann er nefnilega ekki í vafa um að fasteignareigendum sé færður betri réttur. Hér í sölum Alþingis hafa aðrir þingmenn talað með öðrum brag því að hér er upptalið að hv. þm. Pétur Blöndal er sá eini sem hefur komið og sagt það skýrt og skorinort að bændum sé færður meiri réttur eða landeigendum en fyrir var. Aðrir hafa komið hér í sauðargæru, haldið því fram að það væri ekkert að breytast með þessu. Það væri ekki verið að einkavæða vatnið, bara staðfesta ríkjandi ástand. Svona hafi þetta alltaf verið og það segi lögmenn úti í bæ, það er gjarnan sagt í þessum ræðustól.

Þessir hv. þingmenn, í sauðargæru, og hæstv. ráðherra gera sér nefnilega grein fyrir því að þjóðin tekur ekki mark á þeim, hún tortryggir orð þeirra og hefur til þess fulla ástæðu, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Það er nefnilega þannig að sömu þingmenn, sömu stjórnarliðar hafa haldið því fram að það væri ekki verið að einkavæða fiskstofnana á Íslandi. En hvað skyldi það nú vera annað en einkavæðing á fiskstofnunum á Íslandsmiðum að gera þá að verðmæti sem menn geti veðsett? Það skyldi nú engan undra þó að hv. þingmenn finni það á skinni sínu að þjóðin treysti þeim ekki í þessum auðlindamálum og því spyr ég: Hvenær hafa þeir sagt að þeir væru að einkavæða fiskstofnana? Aldrei. Það datt út úr Hannesi Hólmsteini einu sinni en hann var beðinn að hafa ekki hátt um þetta, hann talaði reyndar ekki mjög oft um þetta.

Hver er þá munurinn á orðum og æði þeirra sem kjósa sér sauðargæruna að skjóli? Slíkir menn setja lög eins og lögin um samningsveð sem þessi ríkisstjórn stóð fyrir árið 1997.

Í þeim stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Eigi er heimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar.“

Svo kemur snilldin, hæstv. forseti.

„Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.“

Þetta er sannarlega snilld, hæstv. forseti. Fyrst stendur í 4. gr. eins og ég las upp áðan: „Eigi er heimilt að veðsetja réttindi …“

Síðan er gerð grein fyrir því hvernig menn fá jafngildi veðsetningarinnar. Þetta er hreinasta snilld og ég held að nýyrðið risasmár gæti kannski átt hér við. Þessi farkostur hefur að minnsta kosti reynst býsna stór að innan. Því með þessari lagasetningu tókst sauðargæruþingmönnum að færa útgerðarmönnum jafngildi réttar til að veðsetja alla fiskstofna á Íslandsmiðum. Það var ekkert minna. Með því að segja fyrst að það væri bannað var niðurstaðan sú að hægt væri að ná veðheimild á alla fiskstofna á Íslandsmiðum þar sem kvóti hafði verið ásettur.

Ættu ekki sauðargæruþingmenn að fá orðu, einhvers konar heiðurslepp fyrir þetta afrek? Hv. sauðargæruþingmenn ættu líklega að fá orðu fyrir þetta afrek. (MÁ: Hæstv. sauðargæru …) Einhvers konar heiðurslepp. Það vill svo til að það er vitað hverjum heiðurinn ber.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, sem er aftur genginn á hinn pólitíska ritvöll upplýsti í forustugrein í Fréttablaðinu að Halldór nokkur Ásgrímsson, hæstv. ráðherra, hafi fundið þessa snilld upp, segir hv. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, í forustugrein í Fréttablaðinu í gær. Halldór fann upp á þessu. Það er hann sem átti hlut í því að finna þetta orðalag. Það stendur í forustugrein sem hefur yfirskriftina: Á að sæta sálfræðilegu lagi? En þar útlistar Þorsteinn Pálsson fyrir flokksbræðrum sínum og vinum, samstarfsmönnum í því að einkavæða allt sem hönd á festir á Íslandi, að slíkt eigi maður að gera þegar lag gefst. Bendir á þessa lagasetningu sem hafi tekið 12 ár undir forustu hans, að sæta þurfi sálfræðilegu lagi og er svona látið að því liggja að það geri nú ekkert rosalega mikið til þótt þetta gangi ekki alveg núna, það sé hægt að gera þetta seinna.

Þeir sögðust aldrei vera að einkavæða þjóðarauðlind, þeir sem töluðu fyrir þessu máli hér í sölum Alþingis, sögðu það aldrei. Þess vegna kalla ég þá hv. þingmenn sem tala svona í sölum Alþingis, sauðargæruþingmenn. Þeir koma fram í sauðargærunni. Nema hv. þm. Pétur Blöndal sem segir hug sinn allan og hefur sagt að þarna væri á ferðinni viðbótarréttindi til bænda og landeigenda. (PHB: Nei, nei, nei.) Ekki var annað hægt að skilja á ræðu hv. þingmanns í gær. Ég hef ekki trú á að hv. þingmaður neiti því að hann telji að bændur og landeigendur fái betri rétt með þessari lagasetningu. Er þá fokið í flest skjól og flestir farnir að draga yfir sig sauðargæruna ef hv. þm. Pétur Blöndal gerir það nú líka. Ég trúi því ekki.

Hæstv. forseti. Þegar þessi umræða hófst á Alþingi gaf Samfylkingin út yfirlýsingu. Við sögðum í þeirri sérstöku yfirlýsingu að við legðum áherslu á að ekki yrði ráðist í heildarendurskoðun vatnalaga fyrr en að lægju fyrir öll frumvörp að lögum sem ættu að taka við hlutverki þeirra. Við sögðum að hér væri einkum átt við lög sem leyst gætu af hólmi lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. En nýtt frumvarp á því sviði bíður álits nefndar sem iðnaðarráðherra hafði ekki skipað, eða hefur ekki skipað enn svo ég viti. Sú nefnd á að fjalla um framtíð þjóðarauðlinda og meðferð þeirra ásamt því hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir rannsóknar- og nýtingarleyfum til orku- og auðlindanýtingar. Við sögðum: Einnig er nauðsynlegt að frumvarp um vatnsvernd liggi fyrir af hálfu umhverfisráðherra en því er ætlað að koma til móts við tilskipun Evrópusambandsins um nýtingu og meðferð vatns og mun efni þess augljóslega koma í stað mikilvægra ákvæða vatnalaga frá 1923.

Samfylkingin á Alþingi beitir sér því gegn frumvarpi iðnaðarráðherra um einkaeignarrétt á vatni. Flokkurinn lýsir sig hins vegar reiðubúinn til að taka þátt í að skapa pólitíska sátt um samræmda stefnu og stjórn á nýtingu nátttúruauðlinda sem byggir á heilsteyptum lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu þeirra. Liður í því er að vinna tillögu um hvernig ákvæðum um sameign auðlinda og þjóðarforsjá með auðlindum utan einkaeignarréttar verði best fyrir komið í stjórnarskrá Íslands.

Nú ætla ég að fara að stytta mál mitt, hæstv. forseti. Það sem ég las upp hefur borið árangur. Við höfum náð þeim árangri að þessi leið er þó a.m.k. opnuð. Við höfum með þessu, þ.e. málatilbúnaði okkar á undanförnum mánuðum og missirum og að ná því fram að þær tvær nefndir sem ég nefndi áðan og hafa tekið þátt í að koma því líka á að hér sé til staðar sú vinna sem auðlindanefnd lagði af mörkum, opnað leið til að finna möguleika á pólitískri sátt um meðferð auðlinda á Íslandi. Við munum fylgja því eftir. Samfylkingin mun fylgja því fast eftir að menn verði leiddir áfram til einhvers konar pólitískrar niðurstöðu um þessi mál. Nú reynir á Framsóknarflokkinn, hvort hann ætlar að hverfa af þessum frjálshyggjuleiðangri sínum og taka þátt í því með okkur. Ég hvet framsóknarmenn til þess að taka til bæna forustumenn sína, þá sem hafa leitt Framsóknarflokkinn í frjálshyggjuleiðangrinum, og koma þeim í skilning um að skynsamlegt sé að nota þann tíma sem eftir er fram að næsta þingvetri og fram á hann til að ná samkomulagi um að endurskoða stjórnarskrána með því innihaldi að þar séu ákvæði um þjóðarauðlindir. Ná samkomulagi um hvernig eigi að fara með auðlindir, m.a. vatns og annarra auðlinda, og hvernig menn eigi að fá tækifæri til að nýta það með jafnræði að leiðarljósi.

Þetta er það sem ég vil leggja til málanna í dag, hæstv. forseti, um leið og ég fagna því að okkur hefur þó tekist að vinna umtalsverðan varnarsigur í málinu. Gera okkur mögulegt, ef ekki næst pólitískt samkomulag um þá niðurstöðu sem ég nefndi áðan í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar, að fara í kosningar á næsta ári og leyfa fólki í landinu að leggja mat á hvaða stefna eigi að vera uppi í auðlindamálum á Íslandi.