132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:53]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka fram, eins og ég gerði í gær, að ég tel að með frumvarpi þessu sé um að ræða formbreytingu en ekki efnisbreytingu. Ég tók það fram í gær. En svo sagði ég: Ef við gefum okkur, frú forseti, ég vona að menn skilji íslensku, að það sé rétt sem stjórnarandstaðan heldur fram að hér sé um að ræða einkavæðingu, ef við gefum okkur það, sem ég hafna. (Gripið fram í: Ertu á móti einkavæðingu?)

Ég er að segja það, en þetta er ekki einkavæðing. En ef við gefum okkur að þetta sé einkavæðing hlýtur einhver að eignast vatnið. Ef við gefum okkur það sem hv. stjórnarandstæðingar eru að segja hlýtur einhver að eignast vatnið. Og hverjir skyldu það vera? Ríkið á 40% af landinu sem heita þjóðlendur. Sveitarfélögin eiga stórar lendur í kringum sveitarfélögin með vatnsréttindum, Gvendarbrunna t.d. Svo eiga landeigendur, aðallega bændur landsins, restina. Ef við gefum okkur að þetta sé einkavæðing, sem ég segi að sé ekki, þá eignast þessir aðilar vatnið. Er það slæmt? Er það slæmt að bændur landsins eignist meira?

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Telur hann gefið að þetta sé einkavæðing, sem hann heldur fram, og ég hafna? Telur hann að verð jarða hækki í verði eða lækki við samþykkt frumvarpsins?