132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:56]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Til að hafa það alveg á hreinu tel ég, eins og aðrir stjórnarsinnar, að þetta frumvarp sé formbreyting en ekki efnisbreyting. (JÁ: Og hækkar jarðarverð?) Svo spurði ég hv. þingmann. Er það rétt hjá honum að þetta sé einkavæðing? Þá hækkar það verð á jörðum. Fínt. Það er hans mat. Ég vildi fá það fram. Ég vildi fá það fram að hv. þingmaður og hv. þingmenn Vinstri grænna telji að þetta frumvarp hækki verð á jörðum og þeir eru á móti því. Þeir eru á móti því að fátækir bændur landsins fái eignarréttinn. (SigurjÞ: Hvers vegna eru þeir fátækir?) Þeir eru fátækir vegna áratuga stefnu í landbúnaðarmálum, (SigurjÞ: Einmitt.) sem ég ætla ekki að fara að ræða hérna.

En svo vil ég benda á að sums staðar á landinu eru ölkeldur, á tveim stöðum. Ég veit ekki betur en það vatn hafi alltaf verið í eigu þeirra bænda sem áttu þær jarðir. Hefur nokkrum manni dottið í hug að fara þangað og hirða allt ölkelduvatnið til að setja á flöskur? Ég er hræddur um að landeigendur hefðu nú sagt eitthvað.

Vatn á Íslandi hefur því alltaf verið í einkaeign, nema þar sem allt of mikið er af því og þegar rignir mikið. Þá náttúrlega mega allir ganga í það. En ef skortur er á því eða eignin sérstök með kolsýrt vatn hefur það verðgildi og þá á að sjálfsögðu landeigandinn það, nema hvað? Það hefur alltaf verið þannig, alla tíð í Íslandssögunni. Vatnið fylgir landinu og hefur alltaf gert. Ég skil bara ekki þessa umræðu. (Gripið fram í.) Ég skil ekki þessa umræðu. Við erum hér að ræða að færa lögin til nútímans sem er nauðsynleg breyting, eins og sumir þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu í gær. Þetta er nauðsynleg breyting, sagði formaður Samfylkingarinnar í gær. En það á bara ekki að gera það núna. Það á að gera þetta einhvern tíma seinna. Búið er að ræða þetta margoft. Ég las upp að frumvarpið var lagt fram í fyrra og rætt í hv. iðnaðarnefnd þá. (Forseti hringir.) Nú er skilað inn bæði minnhluta- og meirihlutaáliti.