132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:00]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frjálshyggjuleiðangur Framsóknarflokksins, sagði hv. þm. Jóhann Ársælsson ítrekað í ræðu sinni áðan. Nú hefur verið farið margoft í gegnum þessa umræðu. Árið 1923 voru sett lög á Alþingi Íslendinga. Dómstólar, Hæstiréttur Íslands, hafa túlkað þau lög sem sett voru þá. Þar voru réttindi landeigenda tryggð í bak og fyrir. Þeir máttu með öllum hugsanlegum notum af vatninu nýta þá auðlind og samkvæmt dómafordæmum og samkvæmt skrifum virtustu sérfræðinga á sviði eignarréttar á 20. öldinni hafa þessi réttindi fylgt öðrum fasteignaréttindum. Stjórnarandstaðan hefur ekki bent á einn einasta sérfræðing á sviði eignarréttar á 20. öldinni sem hefur haldið öðru fram. (Gripið fram í.) Samt koma hv. þingmenn hér upp og túlka löggjöfina frá árinu 1923 eins og Alþingi Íslendinga eigi að vera einhver hæstiréttur í þessu máli.

Það er þrískipting valds hér á landi. Við setjum lög. Hæstiréttur Íslands túlkar þau lög sem sett eru á Alþingi. Karl Axelsson hefur sagt að ef við vildum fara leið Vinstri grænna og takmarka réttindi landeigenda sem þessu nemur þá yrði það ekki gert bótalaust. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn Vinstri grænna hafa verið hreinir og beinir í málflutningi sínum, þeir vilja þjóðnýta þessa auðlind, minnka réttindi landeigenda. Það er ósköp eðlilegt að hv. þm. Jóhann Ársælsson komi hér upp aumur og tali um sauðargæru þegar Samfylkingin sjálf liggur undir sauðargæru.

Það veit enginn hver stefna Samfylkingarinnar er í þessum efnum. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn Vinstri grænna hafa staðið sig vel í því að leiða stjórnarandstöðuna en Samfylkingin talar um að ríkisstjórnin sé að afhenda landeigendum, gömlum og nýjum, ný réttindi. Það er alrangt og enginn sérfræðingur á sviði (Forseti hringir.) eignarréttar staðfestir þessa skoðun Samfylkingarinnar.