132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:02]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þrískipting valdsins felst í því að á Alþingi setja menn lögin. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hv. þingmaður getur ekki talað fyrir sjálfan sig en kallar ævinlega aðra til þegar hafa á skoðun á því hvað eigi að vera í lögum. Öll þau atriði sem hafa komið fram og komu fram í starfi nefndarinnar, þar sem menn voru að rökstyðja það að landeigendur ættu vatnið, allur sá rökstuðningur var sóttur í afmörkuð dæmi á grundvelli vatnalaga um hvaða rétt menn hefðu til hagnýtingar á vatni. Þar var hvergi um að ræða eignarréttarhugtakið sjálft á vatninu. Síðan var margsinnis spurt á fundi nefndarinnar hvort einhver dæmi væru um eignarhald af sama tagi og verið er að reyna að setja á vatnið, hvort til væri einhvers konar eignarhald sem segði að eignin gæti skipt um hendur án þess að nokkur viðskipti færu fram, eins og gerist með vatnið þegar það rennur af einni eigninni yfir á aðra. Nei, það var ekki til. Hins vegar var vitnað í fræðimenn sem voru kallaðir til vitnis um að þetta sé allt saman eignarhald og þá er verið að vitna í einhvers konar líkamlegt ástand viðkomandi eignarréttar, hlutkennt ástand.

Þegar spurt var um þetta á fundi nefndarinnar þá komu aldeilis vöflur á þann sem spurður var, einn af þessum aðalsérfræðingum sem um var að ræða og hefur verið kallaður til vitnis hvað eftir annað hér í þingsal. Það er nefnilega hvergi nokkurs staðar dæmi um að menn hafi reynt að setja eignarrétt á fyrirbrigði eins og vatn og ekki loftið heldur sem betur fer. Það er algerlega ný hugsun að hægt sé að eiga með séreignarhaldi eitthvað (Forseti hringir.) svona lagað sem skiptir um hendur án þess að viðskipti fari fram.