132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:05]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef beðið ítrekað um það í umræðum á þinginu að stjórnarandstaðan komi með rökstuðning fyrir máli sínu. Það er hægt að tala í almennum frösum eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki vitnað í lögfræðiálit eins einasta sérfræðings á sviði eignarréttar á 20. eða 21. öldinni. Hv. þingmenn hafa reynt að toga og teygja það sem virtir fræðimenn á borð við Karl Axelsson hafa sagt í þessari umræðu en hafa ekki sjálfir, máli sínu til stuðnings, komið með álit virtra fræðimanna á þessu sviði. Þeir hafa sagt og staðfest með skrifum sínum að hér sé ekki um efnisbreytingu að ræða, hér sér um formbreytingu að ræða. Og hvað á hv. stjórnarandstaða að komast lengi upp með það að tala um frjálshyggjuleiðangur Framsóknarflokksins, frjálshyggjuleiðangur ríkisstjórnarinnar, þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, undir forustu Ögmundar Jónassonar frá Vinstri grænum, tala um að fara sósíalíska leið, að þjóðnýta auðlindina, og það er snöggur blettur á Samfylkingunni í þessari umræðu að hún sé kennd við sósíalisma. En það er sú leið sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar, undir sauðargærunni eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson orðaði svo smekklega áðan, elta vinstri græna í. Og það er alveg komið á hreint að það er orðið kosningabandalag um þetta mál í þinginu. Það kosningabandalag leiðir Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Samfylkingin eltir vinstri græna í þessu og það má vel kjósa um þetta mál. Ég bið hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að koma með einhver gögn, máli sínu til stuðnings, um að hér sé um stefnubreytingu að ræða en ekki formbreytingu, eins og við hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans höldum fram. Hv. þm. Ögmundur Jónasson getur komið upp með þykka blaðabunka og lesið ljóð og sögur en hann hefur því miður ekki vitnað í álit þessara virtu sérfræðinga.