132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:07]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek ekki til baka að frjálshyggjuleiðangur Framsóknarflokksins undir sauðargærunni heldur áfram fram á þennan dag og það virðist ekki vera neitt lát á þeim leiðangri. Það hefur verið þannig frá því að Framsóknarflokkurinn tók að sér að staðfesta einkaeignarhald, einkavæðingu sem aldrei hefur verið talað um upphátt, á fiskstofnunum við Ísland. Hæstv. forsætisráðherra mun eiga hugmyndina að því með hvaða hætti hægt væri að koma því á að veðsetja mætti hvern einasta titt sem syndir í kringum landið. (Gripið fram í.) Þorsteinn Pálsson upplýsir það í Fréttablaðinu í gær að hæstv. forsætisráðherra hafi fundið upp orðalagið.

Þetta finnst mér vera prýðileg sönnun fyrir því að hér sé á ferðinni frjálshyggjuleiðangur Framsóknarflokksins. Finnur Ingólfsson kom með frumvarp til laga um auðlindir í landinu, þar var verið að koma eignarhaldi á auðlindir í landinu. Hæstv. iðnaðarráðherra kemur svo með frumvarp um eignarhald á vatninu í sali Alþingis. Hvað er þetta annað en frjálshyggjuleiðangur, að koma einkaeignarhaldi á hvern einasta titt sem í kringum landið syndir, hvern einasta vatnsdropa sem fellur úr loftinu og hvern einasta jarðarpart inn að miðju jarðar, eins og niðurstaðan var í auðlindalögunum.

Öðruvísu mér áður brá. Ef Framsóknarflokkurinn er ekki í frjálshyggjuleiðangri eins og hann stendur að málum af þessu tagi, undir sauðargærunni, þar sem aldrei hefur verið sagt upphátt hvað menn ætluðu sér, þá kann ég ekki að meta stjórnmál. Og ég tel að býsna margir stuðningsmenn Framsóknarflokksins hafi efasemdir um þennan leiðangur.