132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:26]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hef farið ítarlega yfir afstöðu mína í þessu máli í ræðum við 2. umr. en það eru þó nokkur atriði sem ég vil hnykkja á. Í upphafi máls míns verð ég að segja alveg eins og er að það fór um mig örlítil ónotatilfinning þegar hæstv. ráðherra iðnaðarmála, Valgerður Sverrisdóttir, gerði grein fyrir atkvæði sínu fyrr í dag, vegna þess að þá heyrðist mér ekki betur en svo að hæstv. ráðherra væri að fjalla um vatn eins og hvern annan hlut, bíl, skip eða hvernig svo sem það er, og þess vegna væri það sjálfsagt mál að fara út í þá neikvæðu skilgreiningu sem er búið að ákveða hér með vatnið og lögfesta eignarrétt á vatninu til að auðvelda stjórnsýslu og auðvelda málið í meðförum stjórnsýslunnar eða í viðskiptum milli manna í dómsölum.

Frú forseti. Þessari nálgun er ég algerlega andvíg vegna þess að þessi orð segja manni svolítið í hvaða anda þessi lög eru sett. Þessi orð hugnast mér ekki og ég er algerlega andvíg þessari nálgun vegna þess að vatn er ekki eins og hver annar hlutur. Vatn er ekki hægt að ramma inn og pakka inn í umbúðir heldur er það rennandi allt um kring og eilíft og vatn er uppspretta lífs þannig að þarna er ekki um að ræða gæði, eins og um hverja aðra verslunarvöru sé að ræða.

Frú forseti. Mikið hefur verið talað um að hér sé um að ræða formbreytingu. Þá verð ég, með leyfi forseta, að fá að lesa úr greinargerð frumvarpsins en þar segir á bls. 14, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að fremur er stuðst við neikvæða skilgreiningu á hugtakinu eignarréttur“ þarna er átt við í frumvarpinu, frú forseti, „er sú að jákvæð skilgreining, þ.e. skilgreining þar sem taldar eru upp allar heimildir eiganda, sem í eignarrétti geta falist, yrði of viðamikil og sennilega aldrei tæmandi og því í eðli sínu ófullkomin.“

Frú forseti. Þarna skil ég ekki betur en svo að í greinargerð þessa frumvarps sé verið að lýsa því að hér sé verið að framkvæma eðlisbreytingu á eignarrétti á vatni. Þetta tal um formlega breytingu, að þetta sé eingöngu formleg breyting, með þessum orðum tel ég að í sjálfri greinargerð frumvarpsins sé verið að henda þessu út í hafsauga. Menn ákváðu þegar þeir sáu í hvað stefndi, að þetta færi ekki svo léttilega hér í gegn að skýla sér á bak við að hér væri um einhverja formbreytingu að ræða þegar þeir segja í sínu eigin frumvarpi að svo sé ekki heldur um eðlisbreytingu að ræða. Mér fellur illa í geð þegar menn hafa staðið hér með þessa línu til að reyna að verja sig fyrir hinu raunverulega og sérstaklega þegar við í stjórnarandstöðunni erum vænd um að vera með rýran málflutning. Þetta er staðreynd. Þetta stendur í frumvarpinu á síðu 14 og ég hef lesið það hér upp og vonandi fer hæstv. ríkisstjórn að koma úr fylgsni sínu og viðurkenna hvað verið er að gera í stað þess að fela sig á bak við orðagjálfur um formbreytingu.

Frú forseti. Annað sem ég vil nefna, tengt því að um meira en formbreytingu sé að ræða, er sú staðreynd að í þessu frumvarpi er reynt að ná utan um miklu meira af vatni en í núgildandi lögum. Í núgildandi lögum segir, með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Þetta eru grundvallaratriði og mjög mikilvæg orð, virðulegi forseti. Þarna segir „sem á henni er“. Í frumvarpinu sem hér um ræðir, frú forseti, segir, með leyfi forseta, í 2. gr.

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Frú forseti. Þarna er augljóst, eins og fram kom í umsögnum sem bárust iðnaðarnefnd út af þessu máli, að þetta frumvarp er miklu víðtækara en þau lög sem í gildi eru. Hér er allt mögulegt vatn í hvaða formi sem er geirneglt þannig að það verði undirorpið séreignarrétti. Frú forseti, ég mótmæli því að sú leið sé farin. Vatn er þess eðlis að þetta er ekki hægt og á ekki að vera hægt.

Frú forseti. Ég las upp ágæta klausu úr greinargerð frumvarps hæstv. iðnaðarráðherra sem segir mér að um eðlisbreytingu sé að ræða. Ég vil líka nefna það að úr þeim orðum má lesa að við erum ósammála í í grundvallaratriðum. Við höfum gagnrýnt það, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fór vel yfir það í ræðu sinni, að þessi ríkisstjórn ætli að breyta eðli laganna með því að ná utan um vatn í öllu formi með þessum lögum og gera eignarréttinn tæmandi til allrar framtíðar. Það er grundvallarbreyting. Hingað til hefur verið listað upp hvaða réttindi menn hafa og á því verður grundvallarbreyting.

Frú forseti. Málið kristallast í ræðum löglærðra þingmanna stjórnarflokkanna, annars vegar Framsóknarflokks og hins vegar Sjálfstæðisflokks. Hv. þm. Jónína Bjartmarz lýsti því í gær að ekkert vantaði upp á réttindi til landeigenda nú, til nýtingar á vatni, og því sé þetta eingöngu formbreyting. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kemur síðan upp í atkvæðaskýringu „í ljósi tæknibreytinga“ eða eitthvað í þeim dúr. Hann segir að í ljósi þeirrar öru tækniþróunar sem átt hefur sér stað síðan lögin voru sett verði að gera þessa breytingu. Þarna er grundvallarmunur á. Ég held, virðulegi forseti, að menn ættu að fara varlega í að tala um að stjórnarandstaðan hafi mismunandi sýn á málið þegar fram hefur komið mismunandi sýn háttvirtra löglærðra þingmanna á Alþingi.

Frú forseti. Það er þarna sem skilur milli og þessu mótmælum við. Það er ljóst, frú forseti, að við vitum ekkert hvað verður í framtíðinni, hvers konar tækni verður til staðar til nýtingar á vatni. Hið eina sem við höfum í höndunum upp á framtíðina er spá um að í framtíðinni, eftir 50 ár, verði vatn orðið mun verðmætra en olía. Það er það eina sem við höfum í höndunum. (Gripið fram í: Hverju breytir það?) Frú forseti. Undir slíkum kringumstæðum ætlar þessi ríkisstjórn að lögfesta einkaeignarrétt á vatni til framtíðar, fullkomna eignarréttinn eins og túlka má greinargerðina. Það hugnast mér, virðulegi forseti, afar illa svo vægt sé til orða tekið. Við getum ekki búið við það til framtíðar að menn fari sömu leið og með fiskinn í sjónum, að hér verði hugsanlega hægt að veðsetja vatn í framtíðinni. Þá eru menn aldeilis á villigötum, vatn í öllu formi, hvernig sem það er.

Frú forseti. Í lok máls míns vil ég nefna að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði í gær góða grein fyrir umræðunni sem átti sér stað þegar þessi lög voru sett. Menn hafa ítrekað vísað í anda laganna og túlkun þeirra þegar þau voru sett 1923. Mig langar að fá að vitna eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir í bók eftir Sigurð Gizurarson. Þar kemur fram að Sveinn Ólafsson í Firði var maður einkaeignarréttar og varð undir, eins og kemur í ljós í klausunni sem ég mun lesa. Hann varð undir í umræðunni á Alþingi. Menn vildu ekki einkaeignarrétt á vatni vegna þess að þá voru menn forsjálir. Þeir þekktu verðmæti vatns og eðli vatns, að ekki væri hægt að fella það undir einkaeignarrétt. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að koma með tilvitnun úr þessari ágætu bók eftir Sigurð Gizurarson. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þótt meiri hluti deildarinnar styddi frumvarp stjórnarinnar var þó samþykkt breytingartillaga Bjarna Jónssonar frá Vogi og Jóns Þorlákssonar við 2. gr. þess. Hún fól í sér frávik frá upphaflegri gerð textans, sem hafði verið orðaður á þá lund, að landeigandi ætti hvers konar nytjar vatns „með þeim takmörkunum sem lög, venjur, samningar eða aðrar heimildir hafa í för með sér.“ Orðalaginu var breytt á þann veg, að landeigandi ætti rétt til umráða og hagnýtingar yfir vatni á landi sínu „á þann hátt sem lög þessi heimila.““

Því næst segir, með leyfi forseta:

„Þetta tók Sveinn Ólafsson í Firði mjög óstinnt upp og kvað hér um að ræða slíka grundvallarbreytingu á frumvarpinu, að kippt væri lagastoðum undan einkaeignarrétti á vatni.“ — Hann taldi með þessu unnin spjöll á 2. gr. frumvarpsins. (Gripið fram í: Hvað segir Hæstiréttur?)

Frú forseti. Þetta skýrir fyrir okkur umræðuna frá þessum tíma og er mikilvægt að mönnum sé það ljóst að þeir sem töldu vatn best fyrir komið í einkaeign töldu að með þeirri leið sem farin var á endanum væri lagastoðum kippt undan einkaeignarrétti á vatni. Við skulum halda þessu til haga í þessari umræðu.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vil í lok máls míns segja að ég er andvíg þessari leið, að svo skuli verða um vatnið okkar endanlega, í hvaða formi sem er. Ég mótmæli því harðlega og mun svo lengi sem ég get berjast gegn því að það verði að veruleika.