132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:39]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um að það væri eitthvað skelfilegt að hægt yrði að veðsetja vatn. Vatn er veðsett í dag. Vatn sem selt er í verslunum á flöskum er veðsetjanlegt og er verðsett. Það yrði því ekkert nýtt.

En það er annað sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um. Hv. stjórnarandstæðingar eru á móti frumvarpinu, að mér heyrist allir sem einn. Þeir vilja vinna að því að breyta, nútímavæða frumvarp frá 1923 og gefa sér tíma til þess. Einn hv. stjórnarandstæðingur, hv. þm. Ögmundur Jónasson frá Vinstri grænum, sagði í gær að hann væri ekki sáttur við núgildandi lög. Það væri of mikill einkaréttur í þeim, of mikil einkaeign. Hann vildi auka samfélagslega eign á vatninu. Hv. þm. Ögmundur Jónasson vildi þjóðnýtingu á þeim rétti sem er til staðar í dag. Nú er það spurningin: Hversu vel nær stjórnarandstaðan og hv. þingmaður sem hér talaði … (ÖJ: Ertu í andsvari við mig?) Nei, ég er að spyrja hv. þingmann: Mun hún sætta sig við hugmyndir um frekari vinnslu á þessum lögum sem gilda í dag og væri hún hlynnt þeirri lausn sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kom með í gær? Eða er hún andvíg því að þjóðnýta vatnið?