132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:58]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að áskilja mér þann rétt að fara yfir það sem ég var áður búin að búa mig undir fyrir 2. umr. og hefði það kannski frekar átt að hluta til heima þar.

Eitt mikilvægasta efni jarðarinnar er líklega vatn og snertir það okkur öll á einn eða annan hátt. Hér í ræðustól hefur verið rifjað upp í fyrri umræðum í löngu máli starf fossanefndarinnar og Fossafélagsins Titans. Þar voru menn að fást við skilgreiningar á hlutum, eins og hv. ríkisstjórn ætti að gefa sér betri tíma til að mínu mati að skilgreina, þ.e. eignarréttur, einkaréttur, nýtingarréttur, almannaréttur og hvað þetta allt saman heitir. Einnig hefur það margoft komið fram að um sameiginlega arfleifð mannkyns sé að ræða og mikilvægt sé að verndunarsjónarmið séu það sem okkur beri fyrst og fremst að hugsa um þegar við fjöllum um vatn.

Því hefur jafnvel verið haldið fram að vatn sé margfalt mikilvægara efni en t.d. olía. Við Íslendingar búum svo vel að við eigum nóg af hreinu vatni, en hversu lengi vitum við ekki. Að vatn tilheyri einhverjum ákveðnum, einhver eigi vatnið, ekki bara vatnið í jörðinni undir landinu, heldur líka vatnið sem rennur hjá. Áin sem um landareign rennur á eigandi landsins samkvæmt þeim vatnalögum sem hér er rætt um. Hann eignast það um leið og það kemur í landið en síðan á hann það ekki lengur þegar það rennur út úr landinu. Þetta kemur skýrt fram í 2. gr. um gildissvið.

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Iðnaðarnefnd bárust fjölmargar athugasemdir og hefur verið farið ítarlega í þær hér í ræðustól. Ég ætla rétt að stikla á stóru hvað þær varðar þar sem fram kemur mjög skýr gagnrýni á frumvarpið og mér finnst stjórnarliðar tala lítið um.

Samtök sem undirritað hafa yfirlýsingu um vatn fyrir alla, og áður hefur verið vitnað oft til, skiluðu bæði inn séráliti og sameiginlegu og segir í því sameiginlega m.a., með leyfi forseta:

„Í eftirfarandi sameiginlegri yfirlýsingu kemur fram meginafstaða samtaka þeirra sem að þessari umsögn standa til vatns og hvernig beri að skipa málum er vatn snerta. Ber að líta á efni yfirlýsingarinnar sem hluta af umsögn samtakanna um frumvarp til vatnalaga:“

Síðan kemur yfirlýsingin um vatn fyrir alla. Á eftir kemur umsögn um nánari athugasemdir og þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til vatnalaga er sú meginbreyting gerð að rétti til umráða og hagnýtingar á því vatni sem á landareign finnst, er umbreytt í óskoraðan eignarrétt. “ — Hér greinir stjórnarandstöðuna og stjórnarliða á, því að stjórnarliðar og meiri hlutinn í iðnaðarnefnd kalla þetta formbreytingu. — „Samtökin fallast ekki á þá túlkun að þessi breyting sé einvörðungu formsatriði og hafi enga efnislega þýðingu. Mótmæla samtökin þessari breytingu og leggja til að ákvæði 2. gr. vatnalaga frá 1923 standi óbreytt, enda er breytingin í andstöðu við þá skipan vatnsmála sem fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu samtakanna og byggð er á samþykkt Sameinuðu þjóðanna frá 2002, sem Ísland hefur undirgengist. Þar segir m.a. að líta skuli á vatn fyrst og fremst sem menningarleg og félagsleg gæði en ekki sem efnahagsleg gæði.“

Við gerð þessa lagafrumvarps taldi ráðherra rétt að kalla til m.a. fulltrúa Bændasamtaka Íslands, Orkustofnunar, lögfræðing Orkuveitunnar sem fulltrúa Sambands sveitarfélaga, auk fulltrúa Samorku. „Ekki var leitað til annarra samtaka sem hafa hér augljósra hagsmuna að gæta, hvort sem er náttúruverndarsamtök, mannréttindasamtök, neytendasamtök, verkalýðssamtök eða önnur þau samtök og aðilar sem gæta almannahagsmuna.“

Ástæða er til að velta því fyrir sér hvers vegna Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun og fleiri aðilar voru ekki hafðir með í ráðum þegar verið var að semja lagafrumvarpið.

Það er mikill munur á því að koma að samningu laga eða gefa umsögn um lög sem svo sjaldan er hlustað á. Í 1. gr. vatnatilskipunar Evrópusambandsins, er til stendur að taka upp að hluta til hér á landi innan skamms, segir:

„Vatn er ekki eins og hver önnur verslunarvara, heldur öllu frekar sameiginleg arfleifð, sem verður að vernda, verja og meðhöndla sem slíka. Ofangreind breyting á eignarrétti á vatni gengur augljóslega þvert gegn vatnatilskipun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á að vatn sé sameiginleg arfleifð en ekki einkaeign tiltekinna einstaklinga, hópa eða fyrirtækja.“

Við lagasetninguna var tekist á um tvö meginsjónarmið. Annars vegar hvort líta ætti á vatn sem einkaeign. Hins vegar hvort það ætti að vera í þjóðareign með afnotum fyrir einstaklinga. Í 11. gr. þeirra vatnalaga sem enn eru í gildi segir, með leyfi forseta:

„„Öllum er heimilt að taka vatn til heimilisþarfa og bús, þar sem landeiganda er meinlaust, svo og að nota“ — ekki eiga — „vatn til sunds og umferðar, einnig á ísi, enda fari það eigi í bága við lög, samþykktir eða annað lögmætt skipulag.“ Hvernig fellur þetta að skilgreiningunni á eignarrétti sem segir að rétthafinn hafi einn heimild til umráða og ráðstöfunar verðmæta? Í lögunum frá 1923 er landsmönnum veittur réttur til afnota af vatni, sem eigandi lands með vatnsréttindum getur ekki selt eða ráðstafað.

Sú aðgerð að færa vatn úr sameign yfir í einkaeign er líkleg til að gera vatnsvernd erfiðari þar sem opinbert inngrip í nýtingu og meðferð vatns kann að stangast á við eignarrétt sem er varinn í stjórnarskrá. Rétt er þó að minna á að helgi eignarréttar er ekki takmarkalaus. Í 72. gr. stjórnarskrá segir: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji.“ Sérhver aðgerð sem kann að gera náttúruvernd erfiðari verður að vera rökstudd mjög vel. Í greinargerð með frumvarpinu er m.a. rætt um að vatnalög taki eðlilega bæði til allsherjarréttar og einkaréttar:

Lögin [frá 1923] tóku jafnt til einkaréttarlegra hagsmuna eigenda vatnsréttinda og almannahagsmuna. Þannig falla lögin bæði innan sviðs allsherjarréttar og einkaréttar. … Það er skoðun samtakanna“ — þ.e. um vatn fyrir alla — „að í tilviki vatns sé slík forgangsröðun óásættanleg — þegar vatn sé annars vegar skipti almannahagsmunir meira máli en einkahagsmunir.“ — Tek ég undir þá skoðun. — „Þessi afstaða endurspeglast í vatnatilskipun Evrópusambandsins og í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Mjög óljós ávinningur er af því að færa vatn úr sameign í einkaeign og því er breytingin ekki rökstudd með fullnægjandi hætti. Af ofangreindu er ljóst að sú staðhæfing í rökstuðningi með frumvarpinu að „leggja [verði] áherslu á að hér [þ.e. með breytingu á eignarréttarákvæðinu] er um formbreytingu að ræða en ekki efnislega breytingu á inntaki eignarráða fasteignareiganda yfir vatni“ fæst ekki staðist. Breytingin er miklu meira en formbreyting.

Þó að það megi augljóslega deila um túlkun á vatnalögunum frá 1923, þá er það ljóst að verði orðið við kröfu þeirra samtaka sem að yfirlýsingunni „Vatn fyrir alla“ stóðu um að ákvæði er varða vatn sem mannréttindi, að lög um vatnsnýtingu hljóti að taka mið af lögum um vatnsvernd sem og að vatnsveitur verði reknar á félagslegum grunni verði sett í stjórnarskrá, þá hlýtur að koma til heildstæð endurskoðun á lögum um vatn í heild sinni. Það hlýtur því að vera krafa að endurskoðun vatnalaganna feli í sér aukna áherslu á almannarétt og að horfið verði frá því að vatn teljist einkaeign þeirra landeiganda sem það finnst á

Samtökin telja einnig að með því „að fella einu heildarlögin um vatn undir iðnaðarráðuneyti“ — en ekki umhverfisráðuneyti — „og gera Orkustofnun að helsta eftirlitsaðila með þeim er lögð áhersla á nýtingu vatns frekar en verndun. Verndunarþátturinn, t.d. það sem lýtur að friðlýstum svæðum, kemur inn sem undantekning frá þeirri meginreglu að vatn sé auðlind sem beri að nýta.

Samtökin telja eðlilegra að verndunarsjónarmið standi nýtingarsjónarmiðum framar. Þar með væri eðlilegt að vatnalög heyrðu undir umhverfisráðuneytið og að Umhverfisstofnun væri helsti eftirlitsaðili með lögunum.“

Vatnalögin frá 1923 tóku yfir þetta allt saman og það er mjög eðlilegt að halda því þannig áfram. Eins og fleiri gera samtökin athugasemd við samningu laganna og telja „ámælisvert að ekki skuli hafa verið leitað til annarra aðila sem einnig hafa hér augljósra hagsmuna að gæta, hvort sem er náttúruverndarsamtök, mannréttindasamtök, neytendasamtök, verkalýðssamtök eða önnur þau samtök og aðilar sem gæta almannahagsmuna.“ — Eins og áður sagði.

„Allt kveður við sama tón hjá þeim sem telja sig málið skipta og að ámælisvert sé þegar lög eru samin um mikilsverðar auðlindir úr sameign í einkaeign skuli þau ekki samin með aðkomu stærri og margbreytilegri hóps. Samtökin telja að ekki sé hægt að „skilja vinnulagið við samningu frumvarpsins öðruvísi en svo að litið sé á að hagsmunaaðilar séu fyrst og fremst þeir sem séu líklegir til að gera vatn að verslunarvöru eða hafa eftirlit með stórfelldri nýtingu vatns. … Þess vegna telja samtökin ekki einasta að niðurstaðan (frumvarpið) sé óréttlát, heldur hafi málsmeðferðin (ferlið við samningu frumvarpsins) verið óréttlát.“

Að lokum segir í greinargerð þessara fjölmörgu samtaka, með leyfi forseta:

„Því er augljóslega verið að byrja á röngum enda í lagasetningu og festa í sessi skipan sem er öndverð þeirri sem sett er fram í yfirlýsingu undirritaðra samtaka.

Undirrituð samtök telja því einsýnt að frumvarpið um vatnalög verði dregið til baka og að öll lög sem snerta vatn, hvort sem um er að ræða lög um vatnsveitur eða jarðrænar auðlindir verði tekin til heildstæðrar endurskoðunar, þar sem efni yfirlýsingarinnar „Vatn fyrir alla“, sé haft til hliðsjónar. Enn fremur lýsa samtökin þeirri skoðun sinni að óhjákvæmilega verði að leita til fleiri aðila við þá endurskoðun, en þeirra sem haft var samráð við um samningu frumvarpsins um vatnalög.“

Sama má segja um fleiri umsagnir, m.a. frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun, en þar segir, með leyfi forseta:

„Líkt og iðnaðarnefnd er vel kunnugt hafa verið mjög skiptar skoðanir um nefnt frumvarp og Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun gerðu fjölmargar athugasemdir við fyrra frumvarp um sama efni er það var til umfjöllunar Alþingis á síðasta löggjafarþingi.

Við vinnslu fyrirliggjandi frumvarps virðist nefndin sem vann drögin ekki hafa sent þau út í því skyni að leita með formlegum hætti eftir viðbrögðum annarra aðila og taka rökstudda afstöðu til innsendra athugasemda sem lagðar yrðu fyrir ráðherra ásamt frumvarpinu.“ — Þetta er það sem Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun telja. — „Umhverfisstofnun vill reyndar halda því til haga að fulltrúi nefndarinnar leitaði óformlega til stofnunarinnar á sínum tíma um tiltekin atriði um almannarétt er snerta vatn. Umhverfisstofnun telur það verklag, sem því miður er ekkert einsdæmi, að nefndir skili frumvarpstexta til ráðherra án þess að hafa sjálfar leitað eftir viðbrögðum með formlegum hætti úti í samfélaginu, sé mjög vandmeðfarið. Slíkt á einkanlega við þegar verið er að leggja til breytingar á löggjöf sem kann að snerta eða skarast á við verkefni sem aðrir aðilar innan stjórnsýslunnar eru að sinna. Þegar þannig háttar, og eftir að frumvarpið hefur verið lagt fram, má reikna með að umræðan um efni þess fari eingöngu fram á Alþingi. Hætt er við að umræðan verði mun harðari en hún þyrfti að vera ef ekki er búið að ræða framkvæmda- og tækniatriði þess á fyrri stigum og sem flest sjónarmið liggja fyrir.“

Það hefur einmitt orðið raunin. Þrátt fyrir breytingar sem gerðar voru að mati Umhverfisstofnunar frá fyrra þingi standa enn eftir mikilvæg atriði sem áður hafa verið rakin hér í ræðustól. Rétt er að nefna samt að þau minntust á að tryggt verði að almannaréttur veikist ekki og telji Alþingi að einungis sé um formbreytingu að ræða varðandi skilgreiningu á eignarhaldi og sé það ætlun þess að svo verði, telur Umhverfisstofnun að skilgreining sem byggir á orðalagi gildandi laga sé skýrara út frá sjónarmiði náttúrufræða og valdi minni óvissu á túlkun á almannarétti.

Það sem hins vegar skekkir myndina er að í frumvarpinu er um leið verið að skilgreina til hvers eignarrétturinn tekur, þ.e. til hvaða hluta vatns hann nær, enda segir í 2. gr. frumvarpsins:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Síðan segir í 4. gr.:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Þar virðist vera um verulega efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum þar sem segir í 2. gr.:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“ — Hagnýtingin sem sagt.

Í umsögn Landverndar segir:

„Það vekur athygli stjórnar Landverndar að frumvarpið beinist eingöngu að nýtingu vatns. Ekki er fjallað um varnir gegn mengun, hollustu, náttúruvernd, almannarétt og nýtingu lífrænna auðlinda, sem allt eru mikilvæg atriði sem taka verður mið af við hvers konar nýtingu vatnsréttinda.“

Stjórn Landverndar telur að um grundvallarbreytingu frá núgildandi lögum sé að ræða.

„Stjórn Landverndar vill árétta það sem segir um vatn í sameiginlegri yfirlýsingu þjóðkirkjunnar og fjölmargra félagasamtaka, m.a. Landverndar:

„Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.““

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands segir:

„Í umsögn um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum lagðist Náttúrufræðistofnun eindregið gegn þeirri fyrirætlun að skilgreina vatn (í hvaða formi sem er) sem jarðræna auðlind og fela umsjón þess iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun. …

Vatn er lífsnauðsynleg auðlind og arfleifð alls mannkyns og alls lífríkis á jörðinni. Þessi hugsjón er ráðandi í lagabálkum í nágrannalöndum okkar og kemur vel fram í vatnatilskipun ESB frá [árinu] 2000 sem segir efnislega að vatn sé ekki söluvara heldur sameiginlegur arfur mannkyns sem beri að varðveita, vernda og umgangast í samræmi við það. Nú er unnið að lögleiðingu vatnatilskipunar ESB hér á landi í heildstæðri löggjöf um vernd og nýtingu vatns. Náttúrufræðistofnun leggst gegn því að sértæk lög um eignarhald og umsýslu með vatni séu lögfest áður en fyrir liggur hvernig vatnatilskipunin verður innleidd.

Eignarrétti yfir vatni og öðrum jarðrænum auðlindum er gert hátt undir höfði í nefndum lagafrumvörpum. Nær væri, að mati Náttúrufræðistofnunar, að styrkja almannarétt gagnvart auðlindum landsins og þá sérstaklega gagnvart vatni í öllum þess formum (samanber t.d. ofangreint ákvæði í vatnatilskipun ESB og ákvæði 1. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar.)

Verði frumvarpið að lögum fær Orkustofnun umfangsmikið stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk með vatni sem eðlilegra væri að Umhverfisstofnun færi með samkvæmt áðurnefndri forgangsröð. …

Enn fremur telur stofnunin rétt, í ljósi samfélagsumræðu um eignarhald á vatni annars vegar og almannarétt og náttúruvernd hins vegar, sem verið hefur frá því frumvarpið kom fram fyrst á Alþingi, að íhuga alvarlega að halda ákvæði um eignarhald/nýtingarrétt (2. gr.) óbreyttu frá því sem er í gildandi lögum, þ.e. efnislega: „Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“ Þetta orðalag hefur reynst farsælt í tímans rás og ekki ástæða til að breyta því „formsins“ vegna.“

Eins og margsinnis hefur komið fram í umræðunni er það skilningur stjórnarandstöðunnar og margra annarra hagsmunasamtaka, eins og hér hefur verið rakið, að í eldri lögum er um að ræða nýtingu á vatni en ekki eign, sem hægt er að nota sem verslunarvöru líkt og að mínu viti hefur orðið með kvótann. Það þjónar ekki almannahagsmunum að einhverjir örfáir aðilar geti eignast vatnið, vatnsauðlindina. Auður á fárra hendur er ekki stefna vinstri grænna. Ég tel að með frumvarpi þessu sé, eins og margoft hefur komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, skref í þá átt að það geti gerst.

Það má teljast undarlegt að stjórnarliðar haldi því fram að einungis stjórnarandstöðunni þyki eitthvað athugavert við frumvarpið og skilji það á annan hátt en stjórnarliðar. Eins og ég hef rakið hér að ofan, og margir aðrir í þessum ræðustól, eru mjög margir sem láta sig málið skipta og eru á annarri skoðun en hæstv. ríkisstjórn. Vísun þeirra í að hægt sé að taka vatn eignarnámi, ef ekki semst, er örugglega ekki það sem t.d. sveitarstjórnir vildu standa frammi fyrir ef ekki semst við landeigendur um nýtingu vatnsins. Í framtíðinni getur það nefnilega farið svo að sveitarfélögin þurfi að leita eftir vatni annars staðar en nú er, og ef greiða þarf hærri leigu til landeigenda en nú er, má gera ráð fyrir að sú hækkun yrði innheimt hjá íbúum þess sveitarfélags.

Við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs viljum að sjálfsögðu að frumvarpinu verði vísað frá. Það er meingallað að okkar áliti, sem og mjög margra annarra.