132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Nú er komið að lokum þessarar umræðu um frumvarp til vatnalaga sem staðið hefur drjúgan tíma, eitt umdeildasta mál sem komið hefur inn á þingið í vetur enda snertir það grundvallaratriði. Það snýst um grundvallarafstöðu til stöðu vatns, hvort vatn skuli lúta einkaeignarákvæðum, hvort auðlindin vatn geti orðið einkaeign og orðið að markaðsvöru sem slík eða hvort hitt verði ofan á, sjónarmið þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að auðlindin vatn sé sameign okkar allra og nýtingarréttur til ákveðinna þátta sé tilgreindur í lögum eða reglum. Um þetta snýst málið.

Málið snerist einnig um þetta þegar vatnalögin voru sett árið 1923. Þá bar þáverandi þing gæfu til þess að setja niður nefnd þingmanna sem fór yfir hin ólíku sjónarmið sem þar tókust á og komst að sameiginlegri niðurstöðu, vatnalögum sem síðan hafa gilt og staðist vel. Þau tóku einmitt á þessu atriði, sem hér hefur verið harðast deilt um.

Nú er unnið allt öðruvísi, fengnir verktakar úti í bæ til að semja drög, semja frumvarp til vatnalaga samkvæmt þeim verklýsingum sem þessi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks setur. Ríkisstjórnin hefur einkavæðingu á almannafyrirtækjum, almannaþjónustu og almannaauðlindum fyrst og fremst á sinni dagskrá. Við þekkjum einkavæðingu og sölu Símans og áformin um hlutafélagavæðingu Rariks, sem er undirbúningur undir einkavæðingu þess fyrirtækis. Við þekkjum umræðuna um löngunina til þess að einkavæða raforkukerfið. Við þekkjum þetta allt og núna er það vatnið.

Frú forseti. Það var mikið gæfuspor og hald í því þegar í lög um stjórn fiskveiða voru sett, lög nr. 38/1990, í 1. gr., með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Þetta báru menn gæfu til að setja inn í lögin um stjórn fiskveiða, að nytjastofnar á Íslandsmiðum skyldu vera sameign íslensku þjóðarinnar.

Við þekkjum slaginn sem staðið hefur og harðan ágang útgerðaraðila, þeirra sem hafa fengið úthlutað veiðiheimildum, á að fá að slá eign sinni á þetta til frambúðar, að nytjastofnar á Íslandsmiðum verði séreign. En sem betur fer stendur þetta í þessum lögum. Ég velti fyrir mér, þegar ég heyri málflutning þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem berjast sem harðast fyrir þessu í raun, á bak við Framsóknarflokkinn sem er bara beitt fyrir kerruna, en þeir segja: Við krefjumst einkaeignarréttar á vatni. Þeir tala um þjóðnýtingu o.s.frv. ef eitthvað annað kemur til umræðu. Vilja þeir afnema ákvæðið í lögunum um stjórn fiskveiða, um að nytjastofnar á Íslandsmiðum skuli vera sameign íslensku þjóðarinnar? Er það vilji þessara þingmanna að afnema það? Það væri væntanlega í takt við málflutning þeirra.

Ég hefði viljað að við bærum gæfu til að setja í 1. gr. vatnalaga, þessara umdeildu vatnalaga sem vonandi verða aldrei að lögum, ákvæði um að vatnsauðlindin, auðlindin vatn, væri sameign íslensku þjóðarinnar eins og við höfðum vit á að segja það um nytjastofna á Íslandsmiðum. Hefði meiri hlutinn borið gæfu til þess, svo gæfulaus sem hann er, að segja að markmið laga um vatn væri að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þess. En verndarsjónarmið varðandi vatn er hvergi að finna í frumvarpi til vatnalaga, hvergi.

Frú forseti. Auk þessa er með þessu lagafrumvarpi reynt að skerða almannaréttindi og rétt ýmissa atvinnugreina, t.d. landbúnaðar. Landbúnaður nýtur samkvæmt gömlu vatnalögunum víðtækra réttinda til aðgangs að vatni, ekki bara til búfjárræktar og kvikfjárræktar eins og stendur í þessu frumvarpi heldur einnig til almennrar jarðræktar, til garðyrkju o.s.frv. Þetta er numið á brott. Auk þess eru heilir kaflar í frumvarpinu sem hingað til hafa heyrt undir landbúnaðarráðherra en eru nú færðir undir iðnaðarráðherra. Þannig er gengið á almannaréttinn.

Frú forseti. Það var mikið lán og fagnaðarefni að stjórnarandstöðunni tókst að knýja fram að gildistöku þessara ólánslaga eða frumvarps sem er hér að koma til lokaafgreiðslu skyldi frestað fram yfir næstu kosningar. Þá gefst þjóðinni tækifæri til að segja skoðun sína á þessu máli og hvort hún vill einkavæða vatnið. Það er hægt að afnema þessi lög fyrir haustið 2007 og það skulum við gera.