132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:38]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra landbúnaðarmála hefur upplýst okkur um að hæstv. iðnaðarráðherra hafi gert ein augljós og stór mistök við þessa lagagerð. Að mínu mati lýsir það lagagerðinni í heild. Þau eru ein stór mistök.

Hæstv. ráðherra reyndar upplýsti okkur ekki alveg um hvernig hann ætlaði að fara að. Má búast við breytingartillögu frá honum á næsta þingi? Eða reiknar hann með að nefndin sem skipuð verður komi fram með breytingartillögu? Mig langar líka til að vita hvort það er samkomulag á milli hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra um þetta efni.

Er það ásetningur hæstv. iðnaðarráðherra að halda þessu inni í lagabálki sínum? Gerir hæstv. ráðherra sér grein fyrir að hún er með þessari lagagrein að seilast inn á verksvið landbúnaðarráðuneytisins?

Mig langar líka að biðja hæstv. landbúnaðarráðherra að tjá sig um þá þröngu skilgreiningu á búsþörfum í frumvarpi til vatnalaga. Það veldur mér áhyggjum. Það veldur mér líka áhyggjum hvernig heimilisþarfir eru skilgreindar. Þær eru mjög þröngt skilgreindar og það getur komið niður á atvinnulífi í sveitum, t.d. þegar um er að ræða uppeldisstofnanir sem eru talsvert víða í sveitum. Er hæstv. ráðherra sáttur við þær skilgreiningar eins og þær líta út?