132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:40]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eiginlega makalaust hjá hv. þingmanni að halda því fram að iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi gert stór mistök. Þetta er frumvarpið og þetta kom mér á óvart og fleiri ráðherrum. Þetta er bara stjórnarfrumvarp og þessi ákvæði eru þarna inni.

Ég ber ábyrgð á því að hafa ekki greint þau þegar ríkisstjórnin lagði frumvarpið fram og minn þingflokkur. Þannig er engan við að sakast en mig í þeim efnum. Það þýðir ekki að búa til sök á einn ráðherra í þeim efnum. Þetta stendur svona en ég trúi að vilji sé til að leiðrétta málið á seinni stigum og kannski fyrr en síðar. Enda er eðlilegt að þetta heyri undir landbúnaðarráðherra, Landgræðsluna o.s.frv.

En ég frábið mér að finna sökudólg í þessu máli. Ég ber ábyrgðina að miklu leyti sjálfur, að hafa ekki tekið eftir málinu. Að það skyldi aldrei hafa komið upp í störfum nefndarinnar fannst mér einnig dálítið merkilegt, eftir á að hyggja.

En þetta var bara niðurstaðan. Menn höfðu gert þetta samkomulag og lögin taka ekki gildi strax (Gripið fram í.) að okkur gefst tími til að fara yfir þennan þátt málsins og annan.

Hins vegar vekur það athygli mína hvað umræðan um vatnið hefur tekið gríðarlegan tíma. Menn hafa talað lengi og mikið um auðlind Íslendinga, sem við eigum saman og höfum átt saman í þúsund ár. Vatnið kemur að ofan, vatninu rignir, vatnið fer frá bæ til bæjar. Lækir fossa af brún. Vatnið er, eins og ég sagði fyrr í dag, frjálst og Íslendinga mun aldrei skorta vatn. Það er sterkasta auðlind Íslendinga og íslenska þjóðin á öll rétt á því vatni sem hún þarf. Það þarf enginn að hafa áhyggjur. Enda sagði hv. þm. Össur Skarphéðinsson í dag að fólk mundi ekkert finna fyrir þessum breytingum og hann er (Forseti hringir.) reyndasti og einn greindasti maður Samfylkingarinnar.