132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:13]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú munum við samþykkja frumvarp til nýrra vatnalaga sem leysa mun rúmlega 80 ára gömul vatnalög af hólmi, sem að sínu leyti hafa reynst okkur vel. Þó hefur reynst nauðsynlegt að gera verulegar breytingar á vatnalögum vegna nýrrar tækni og þjóðfélagsbreytinga sem orðið hafa frá því að gömlu vatnalögin voru sett. Frumvarpið sem við greiðum nú atkvæði um færir stjórnsýslu, leyfisveitingar, reglur um eignarnám og fleira til nútímans. Þær svara kalli nútímans.

Menn hafa fjallað um að með þessum lögum sé réttur almennings til að fá sér vatn fyrir borð borinn. Auðvitað er þetta ekki rétt. Í 15. gr. frumvarpsins er kveðið skýrt á um að vatnstaka til heimilis- og búsþarfa gangi fyrir annarri vatnsnýtingu. Það mætti að sönnu kalla þessa grein „vatn fyrir alla“ vegna þess að þetta frumvarp til vatnalaga tryggir vatn fyrir alla, öfugt við það sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram í þessu máli. (Gripið fram í: Gegn hvaða verði?)

Menn hafa líka haldið því fram að hér sé um einkavæðingu vatns að ræða. Stór orð hafa verið látin falla gegn slíkri einkavæðingu. Ég mótmæli því að við séum að einkavæða vatnið. Hafi einkavæðing á vatni einhvern tímann farið fram gerðist það árið 1923 og andstæðingar þessa frumvarps, hv. þingmenn, eru því töluvert seint á ferðinni við að halda uppi mótmælum sínum gegn slíkri einkavæðingu, ef svo má kalla.

Um það tókst víðtæk sátt árið 1923 að tryggja landeigendum eignarrétt yfir vatni og vatnsréttindum, og sá réttur (Gripið fram í.) hefur verið túlkaður í dómum Hæstaréttar með þeim hætti allt frá þeim tíma. Ég nefni dóma frá 1955 og 1963 því til stuðnings. (Gripið fram í.) Um þetta hefur verið samstaða hjá öllum okkar helstu fræðimönnum á síðustu öld í eignarrétti og allir lögfræðingar sem vilja láta taka mark á sér taka undir þann skilning.

Við sem stöndum að þessu frumvarpi munum standa vörð um réttindi landeigenda sem þeim voru tryggð árið 1923. Stjórnarandstaðan vill hins vegar gera réttindi landeigenda, sem þeim voru þá tryggð, upptæk. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki standa að slíkri aðför gegn (Forseti hringir.) landeigendum, þar á meðal bændum þessa lands. Því munum við greiða þessu frumvarpi atkvæði okkar.