132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:19]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu og það er gott vegna þess að stjórnarandstaðan hefur sjaldan eða aldrei gengið eins langt í að skrumskæla mál og reyna að villa mönnum sýn eins og í þessu máli. (Gripið fram í: Ja. Ja.) Málflutningur hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar hefur verið sá að frumvarpið gangi út á það að skerða aðgang að vatni. Þau slá um sig með klisjum eins og „vatn fyrir alla“ og fólki er talin trú um að ríkisstjórnin, og þá sennilega (Gripið fram í.) sérstaklega iðnaðarráðherra, muni hafa það hlutverk að skrúfa fyrir vatn til landsmanna.

Það er augljóst að Íslendingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að búa við vatnsskort, svo mikið er víst. Þetta frumvarp breytir engu um það. Það sem er hins vegar umhugsunarefni er það hvernig öll stjórnarandstaðan hefur gert hv. þm. Ögmund Jónasson að leiðtoga lífs síns. (Gripið fram í: Góður leiðtogi.) Hann á sér ýmsa hatta sem hann getur notað eftir því hvernig vindar blása og hver málefnin eru sem uppi eru hverju sinni. Með ákveðinn hatt á höfði heldur hann ráðstefnur og fær t.d. erlenda fyrirlesara til landsins sem hann velur að sjálfsögðu sjálfur með tilliti til skoðana. Hv. þingmenn hafa reynt að setja þetta mál í ýmiss konar samhengi, m.a. það að vatn sé uppspretta lífs, eins og að ríkisstjórnin sé á móti lífi á jörðinni.

Það hefur verið talað um mannréttindi. Ekki ætla ég að gera lítið úr því að það er mikill skortur á aðgangi að vatni í ýmsum þróunarlöndum og ríkar þjóðir þurfa að leggja sig enn frekar fram um að bæta úr í þeim efnum. Það hefur hins vegar ekkert með þetta frumvarp að gera. Það sem e.t.v. hefur ekki komið nægilega vel fram í þessari umræðu er það að einkaeignarréttur á vatni verður ekki tekinn af fasteignareigendum án bóta. Stjórnarandstaðan hefur á þeim um það bil 50 klukkustundum sem þessi umræða hefur staðið aldrei komið inn á það hvað það muni kosta ríkissjóð að kaupa þessa eign af landeigendum, fasteignareigendum. Samt hef ég heyrt stjórnarandstæðing segja að eignarrétturinn sé friðhelgur.

Hæstv. forseti. Að síðustu vil ég segja, og verða það mín síðustu orð um þetta frumvarp, að hér er um formbreytingu að ræða, ekki efnisbreytingu. Almannaréttur er ekki skertur. Ef skilgreiningin „einkavæðing á vatni“ á við um þetta efni átti hún sér stað árið 1923.