132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:30]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ósanngjarnt að spyrja núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra þessarar spurningar en engu að síður geri ég það samt. Lögin sem hér er verið að flytja breytingartillögu við eru tæplega ársgömul og þess vegna er dálítið skrýtið að nú skuli vera nauðsyn á að breyta einni grein þeirra og því spyr ég: Var þetta ekki fyrirsjáanlegt í fyrra þegar þau voru samþykkt eða er kannski alltaf eitthvað athugavert í svona frumvörpum þegar þau eru afgreidd vegna þess að áðan, rétt áður en umræðu um vatnalagafrumvarpið lauk, kom hæstv. landbúnaðarráðherra og lýsti því hvernig ríkisstjórninni hefði yfirsést í nokkrum atriðum í sambandi við það frumvarp og að því væru mistök en það gæfist tími til að lagfæra það seinna meir?

Eins og ég sagði eru þau lög sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er að mæla fyrir breytingartillögu á í einni grein þeirra ekki orðin ársgömul og hér kemur fyrsta breytingartillagan við þau. Var þetta ekki fyrirsjáanlegt fyrir einu ári síðan, virðulegi forseti?