132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:33]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svarið. Auðvitað er þetta eitthvað sem mönnum hefur yfirsést síðast og þegar það gerist, eins og hæstv. ráðherra nefndi, þá eru þeir menn að meiri að breyta því. Það var einmitt það sem við urðum áskynja um áðan í vatnalögunum með hæstv. landbúnaðarráðherra. Hann kom áður en umræðu lauk og viðurkenndi að ríkisstjórninni hefði sést yfir nokkra þætti þar. Það má því vænta að svo hafi verið. Það má eiginlega segja, því miður, að svo sé með ýmis frumvörp sem koma frá hæstv. ríkisstjórn að fyrir utan það að mörg séu þau vitlaus, eins og vatnalagafrumvarpið, þá eru þau þar að auki meingölluð og þyrfti að lagfæra þau áður en þau verða að lögum.