132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég álít rétt að fara nokkrum orðum um þetta mál vegna þess að ég held að ef okkur hafa orðið á mistök varðandi þessa samninga og okkur beri að gera það sem hér er verið að leggja til, þá hljóti aðalspurningin í því máli að vera: Hver er starfsemi fiskmarkaðanna í dag? Hvernig starfa þeir? Hvað aðhafast þeir? Hvernig meðhöndla þeir sig o.s.frv.? Ég held að á mjög mörgum fiskmörkuðum sé stunduð starfsemi sem gæti þess vegna flokkast undir fiskvinnslu, þ.e. að fiskmarkaðirnir taka iðulega við fiski af fiskiskipum, flokka hann eftir stærð í fyrsta lagi, sjá jafnvel um slægingu fisksins og ef því er að skipta sjá þeir um að fiskurinn sé hausaður og dæmi eru auðvitað um að á fiskmarkaði eða hliðargrein við fiskmarkaði sé fiskur flakaður til kaupenda. Ég hygg því að fiskmarkaðir sem slíkir eins og þeir starfa á Íslandi í dag stundi oft og tíðum fiskvinnslu að hluta til og innlegg mitt í þessa umræðu er eingöngu að beina því til hæstv. ráðherra og hv. formanns sjávarútvegsnefndar að þetta atriði verði skoðað mjög gaumgæfilega. Því ef ég veit rétt þá er það auðvitað þannig að erlendir ríkisborgarar eiga ekki rétt á að taka þátt í fjárfestingum annars vegar í útgerð og hins vegar í fiskvinnslu.

Það er auðvitað vanddregin þessi lína, þ.e. hvað fiskvinnsla nákvæmlega sé. Menn hafa haldið því fram að það mætti jafnvel teygja fiskvinnsluhugtakið það langt að það næði til flokkunar á fiski og frágangi á honum til sölu á erlendum markaði, flokkun, stærðarflokkun, ísun og öðrum frágangi sem dygði til að koma fiskinum úr landi og á erlendan markað, það væri að hluta til fiskvinnsla.

Í öðrum tilvikum hefur því verið haldið fram að það yrði að aðhafast eitthvað við fiskinn, taka af honum hausinn eða slægja hann eða eitthvað slíkt til að það teldist fiskvinnsla. Ég held að það sé vandmeðfarið að draga þessa línu og núverandi starfsemi fiskmarkaðanna kynni að vera gerður óleikur með því að túlka þetta með þessum hætti, við værum í raun og veru með þessu að þrengja að starfsemi fiskmarkaðanna miðað við hvernig starfsemi þeirra hefur verið þróuð á undanförnum árum. Ég held að það væri kannski ekki til góðs, hæstv. forseti. Þess vegna mælist ég til þess við hæstv. ráðherra að hann láti vinna upp gögn varðandi fiskmarkaðina um það hvað einstakir fiskmarkaðir aðhafast í húsnæði sínu og starfsstöðvum og hvort línan sem þarna er á milli annars vegar fiskmarkaðar og hins vegar fiskvinnslu sé nægilega skýr til að hægt sé að samþykkja það lagafrumvarp sem hér er lagt fram með hliðsjón af því ákvæði að erlendum ríkisborgurum eigi ekki að vera heimilt að fjárfesta í útgerð og fiskvinnslu, ef ég veit rétt. Ég beini því þeim tilmælum til hæstv. ráðherra og síðan til hæstv. sjávarútvegsnefndar að þetta atriði verði skoðað mjög gaumgæfilega. Ég held að þessi lína sé svolítið vandmeðfarin. Þetta atriði gæti þess vegna valdið okkur skaða eða þrengt starfsemi fiskmarkaða sem er ekki víst að þjóni þeim markmiðum sem þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar.