132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[17:21]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að ástæða sé til að menn ræði mál sem tengjast þessu. Menn eru að tala um erlent fjármagn inn í íslenskan sjávarútveg og fiskmarkaðir eru hiklaust hluti af sjávarútveginum á Íslandi.

Ég hef sagt það áður að ég hef ekki á móti því að erlendir aðilar geti átt í íslenskum fyrirtækjum. Það á við um öll íslensk fyrirtæki. Ég get ekki séð að íslensk stjórnvöld eigi með nokkrum hætti að verja íslenska eigendur í einhverri grein sérstaklega fyrir því að erlendir aðilar komi þar inn og maður hlýtur að spyrja ævinlega: Hvers vegna er það sem íslensk stjórnvöld telja að ekki megi hleypa erlendum aðilum inn í sjávarútveginn? Svarið er einfalt. Eignarhaldsfyrirkomulagið á veiðiréttindum á Íslandi er með þeim hætti að íslensk stjórnvöld þora ekki að bera ábyrgð á því að erlendir aðilar komi inn sem eigendur í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Hvað segir það okkur? Það segir okkur að fyrirkomulagið með eignarhaldið á veiðiheimildum, eins og það er, er óboðlegt og reynslan segir okkur að sá sem á veiðiréttinn á Íslandi fær hagnaðinn af útgerð á Íslandi, enginn annar.

Ef þessum reglum verður ekki breytt og erlendir aðilar fá tækifæri til að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi getum við séð landið sjálft lenda í hlutverki kvótalausa sjávarþorpsins. Þess vegna eru menn á móti því að útlendingum verði leyft að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. En ég segi: Við þurfum að gera tvennt. Við þurfum að taka til heima hjá okkur og ganga þannig frá reglum um aðgang að þessari auðlind að arðurinn lendi hjá þjóðinni sem á auðlindina en arðurinn verði ekki fluttur úr landi vegna eignarhaldsfyrirkomulagsins sem komið hefur verið á, vegna einkavæðingarinnar sem menn hafa verið að burðast við að koma á í sjávarútvegi á Íslandi. Þarna liggur auðvitað hundurinn grafinn. Menn þurfa að horfast í augu við þetta og menn verða að horfast í augu við þetta vegna þess að Ísland er lítið land og á allt undir því að geta haft frjáls viðskipti við löndin í kringum okkur. Hnattvæðingin er í raun og veru grundvöllur fyrir hinu góða efnahagslífi sem er á Íslandi. Halda menn virkilega að við getum haldið sjávarútveginum eitthvað sér í framtíðinni og viljum við það? Ætlum við að hafa einhver gæludýr á Íslandi sem eru varin fyrir samkeppni annars staðar frá með sérstökum hætti? Bændur með mjólkurkvóta og útgerðarmenn með kvóta í sjávarútvegi? Auðvitað ekki. Auðvitað þarf að vera jafnræði til að vera í atvinnurekstri á Íslandi og það þarf að gerast um leið og menn opna fyrir möguleika til að fjárfesta í útgerð á Íslandi. En hér erum við að tala um fiskmarkað. Ég tel að engin hætta sé á ferðum þótt menn hleypi erlendum aðilum í að taka þátt í fiskmörkuðum á Íslandi.

Hins vegar er full ástæða til að fara yfir það með hvaða hætti fiskmarkaðir eru reknir og hverjir eiga þá í dag og hvort eignatengslin þar séu þannig að öruggt sé að þeir séu reknir á eðlilegum grundvelli. Við erum í litlu samfélagi þar sem eignatengsl og viðskiptatengsl eru jafnvel mjög persónubundin og fyrirtæki og einstaklingar eru samofin í sjávarútvegi á Íslandi. Ég tel ástæðu til að sjávarútvegsnefnd skoði þetta vandlega og hvort reglurnar um eignarhald á fiskmörkuðum séu með þeim hætti að hægt sé að treysta því fullkomlega að ekki verði árekstrar milli þeirra sem þarna eiga hlut að máli.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra. Ég fæ tækifæri til að fjalla um málið í sjávarútvegsnefnd og ég mun auðvitað gera það á jákvæðan hátt. Ég tel ástæðu til að skoða þetta með jákvæðum huga og tel að hér sé á ferðinni lítið skref í þá átt að opna svolítið sjávarútveginn. Ég held að það væri gott að nefndin tæki til umræðu um leið hvort reglurnar um aðgang að fiskvinnslunni í landinu geti komið til endurskoðunar líka. Og það er mjög athyglisvert í því samhengi að ég hef skrifað nokkuð oft upp á frumvarp með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem hefur flutt það hvað eftir annað, að skilja eigi á milli útgerðar og fiskvinnslu. Ef menn gera það sé ég ekki að menn þurfi að óttast um það að erlendir aðilar megi koma í fiskvinnsluna í landinu.

En ég ætla að enda orð mín á því að segja að auðvitað þurfa menn að skoða þetta allt saman í heild sinni og snúa sér að því að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu í þá áttina að við getum haft sömu reglur um það og annan atvinnurekstur í landinu.