132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[17:29]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og það er eðlilegt að hún snerti fleira en bein efnisatriði frumvarpsins. Vissulega getur frumvarp af þessu taginu opnað alls konar umræður sem ekki er óeðlilegt að fari fram. Ég ætla þó eingöngu að snúa mér að þeim spurningum sem hafa verið lagðar fram og snerta frumvarpið og sneru að mér.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson velti fyrir sér hvort við þyrftum ekki að skoða gaumgæfilega hvort þetta þrengdi að stöðu fiskmarkaða. Ég tel að svo sé ekki. Ef gildandi lög eru skoðuð er þar að finna skilgreiningu á hvað sé uppboðsmarkaður og, með leyfi virðulegs forseta, er það „markaður þar sem sjávarafli, eldistegundir bæði úr ferskvatns- og sjávareldi, vatnafiskur og afurðir úr framantöldu eru seldar á frjálsu uppboði. Uppboðsmarkaður getur jafnframt veitt aðra þjónustu sem tengist sölunni.“

Hér er um að ræða ákaflega afmarkaða starfsemi sem fellur undir hugtakið fiskmarkaður og það sem hér er verið að vísa til varðandi eignarhald og heimildir útlendinga til eignarhalds tekur þá til uppboðsmarkaða eins og því er lýst í gildandi lögum.

Ljóst er að ef um það væri að ræða að fiskmarkaðir tækju þátt í annarri starfsemi útgerðar eða fiskvinnslustarfsemi mundu þau almennu lög fara að gilda sem í gildi eru um eignarhald útlendinga, fiskvinnslu og útgerð. Hins vegar eru eins og menn vita í gildi lög sem heimila óbeina eignaraðild útlendinga í íslenskum sjávarútvegi en alls ekki beina eignaraðild.

Þetta er í rauninni líka svar við spurningu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði, þ.e. hvort verið væri að stíga skref sem opnaði eignaraðild útlendinga að íslenskum sjávarútvegi. Svo er ekki eins og ég hef þegar rakið. Hér er eingöngu verið að fjalla um fiskmarkaði samkvæmt þeirri skilgreiningu sem lögin kveða mjög skýrt á um, þ.e. lögin frá því 9. júní 2005.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spurði um samninginn við Færeyinga. Eins og ég sagði áðan er um að ræða þjóðréttarlegar skuldbindingar sem taka ekki gildi fyrr en Alþingi hefur sagt álit sitt á þeim. Ég fullyrði að áður en þetta mál verður afgreitt verða þau mál komin hingað til Alþingis og að þingmenn hafi þá tekið afstöðu til málsins. Ég er sammála honum um að þetta sé almennt talað samningur sem ég held að verði til góðs fyrir þjóðirnar og geri það að verkum að þau viðskipti sem ég held að eigi sér stað milli Færeyinga og Íslendinga verði greiðari en áður.

Ég tek að öðru leyti undir það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði áðan, ég tel að engin áhætta sé tekin með þessu máli þó að verið sé að breyta þessum lögum hvað varðar íslenskan sjávarútveg. Hér er um að ræða opnun á eignaraðild útlendinga að afmarkaðri starfsemi sem kveðið er á um í þeirri löggjöf sem er í gildi og hún tekur til þeirra þátta sem ég hef þegar rakið.

Að öðru leyti þakka ég fyrir ágæta umræðu.