132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Ákvörðun Bandaríkjamanna í varnarmálum.

[15:08]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að horfa á þennan þátt í endursýningu vegna þess að þar segir hæstv. utanríkisráðherra að málið hafi ekki komið honum allsendis á óvart. Í því getur ekki falist annað en viðurkenning á því að hann vissi um þetta. Hins vegar er það einfaldlega svo að það virðist sem hér sé um hannaða atburðarás að ræða vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, treysti sér ekki til að koma heim með það sem niðurstöðu í samningum að herinn væri að fara. Það var þess vegna sem hann var með í ráðum um það með hvaða hætti þetta ætti að bera að íslensku þjóðinni.

Frú forseti. Mér finnast þetta ekki eðlileg vinnubrögð. Ég fordæmi pukur af þessu tagi og ég vonaðist til að hæstv. utanríkisráðherra gerði það líka. Það sem skiptir máli í þessum efnum er að menn komi hreint fram en mér sýnist að það ekki hafi verið gert í þessu máli.