132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Þverpólitísk aðkoma að öryggismálum.

[15:10]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar greint var frá því síðastliðinn miðvikudag að Bandaríkjamenn hygðust draga herlið sitt frá Íslandi var boðað til fundar með fulltrúum allra stjórnmálaflokka, bæði formönnum flokkanna og einnig í utanríkismálanefnd Alþingis. Það var eðlilegt að gera þetta í ljósi alls þess sem í húfi er, öryggis- og björgunarmál, yfirtaka á verkefnum sem nú eru á hendi Bandaríkjamanna og atvinnuöryggi á Suðurnesjum, en fyrirsjáanlegt er að mörg hundruð manns missi atvinnu sína. Allt þetta krefst markvissra viðbragða.

Fyrir Alþingi liggur tillaga frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um þverpólitíska aðkomu að undirbúningi undir brottför hersins. Hefur hún reyndar verið lögð fram og verið til umfjöllunar á undanförnum þingum án þess að hljóta nokkurn tíma afgreiðslu. Tvennt hefur vakað fyrir þingflokknum, annars vegar að búa í haginn fyrir það sem fyrirsjáanlegt hefur verið um alllangt skeið, að Bandaríkjamenn hyrfu af landi brott, og hins vegar að freista þess að skapa þverpólitíska samvinnu um stefnu Íslands með tilliti til öryggismála í breyttum heimi.

Þessari hugmynd hreyfði formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, á fundi formanna stjórnmálaflokkanna síðastliðinn miðvikudag eins og hæstv. forsætisráðherra getur án efa staðfest.

Nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort hann vilji stuðla að sameiginlegri aðkomu allra stjórnmálaflokka að því starfi sem fram undan er.