132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Innrásin í Írak.

[15:16]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og öllum er kunnugt markaði helgin síðasta þau tímamót að þrjú ár eru liðin frá innrásinni í Írak. Það þarf vart að rifja það upp fyrir þingheimi eða landsmönnum hvernig það bar að að tveir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, þáverandi forsætisráðherra og þáverandi utanríkisráðherra, léðu innrásinni stuðning sinn með samtölum við stjórnvöld í Washington. Það var gert án samráðs við þing og án samráðs við þjóð eins og allir vita.

Mig langar af þessu tilefni að spyrja hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson hvort hann telji nú, þremur árum eftir þessa innrás, að hún hafi verið íröksku þjóðinni til heilla og Íslandi til vegsauka á alþjóðlegum vettvangi. Ég held að það væri ágætt að fá svar hæstv. forsætisráðherra við því nú, á þessum tímamótum.

Eins og mönnum er kunnugt um var fyrrverandi forsætisráðherra í bráðabirgðastjórn Íraks, Jaafari að nafni, í fréttum nýverið, í gær minnir mig, og þar var haft eftir honum að að hans viti geisaði nú borgarastyrjöld í Írak. Á hverjum degi falla 40, 50, 60 manns. Það er stöðugur ófriður á ákveðnum svæðum í Írak og alveg ljóst að líf hins almenna borgara er ekki með eðlilegum hætti og Írakar búa við mikið óöryggi. Eins og ég segi, á þessum tímamótum vil ég inna forsætisráðherra eftir því sem ég hef hér áður sagt.