132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Innrásin í Írak.

[15:23]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er samdóma álit manna austan hafs og vestan, jafnvel manna er starfað hafa fyrir Bush-stjórnina í Washington, að þótt innrásin í Írak hafi heppnast eins og menn segja hafi það sem í kjölfarið fylgdi ekki heppnast, ekki uppbyggingin, ekki það starf sem þar þarf að vinna og ekki það að koma á öryggi og uppbyggingu í Írak.

Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir því við hvaða aðstæður Írakar búa þessa dagana, en það er a.m.k. alveg ljóst að sú tilraunastarfsemi sem rekin hefur verið þar á vegum ríkisstjórnar Georges Bush hefur ekki borið mikinn árangur á undanförnum þremur árum og það eitt ætti að kenna okkur að það er betra að leita eftir og undirbyggja slíkar ráðstafanir með samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og með öðrum leiðum en þeirri sem farin var árið 2003.