132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fjölgun starfa hjá ríkinu.

[15:29]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að vona að við þingmenn landsbyggðarinnar megum tala um staðreyndir enn þá og vitna í opinberar tölur og svör hæstvirtra ráðherra, t.d. fjármálaráðherra. Ég vona að það sé leyfilegt, frú forseti. Ef það kemur fram að ríkisstarfsmönnum hafi fjölgað um 2.956 frá árinu 1997 til ársins 2005 og að sú fjölgun hafi nær öll orðið í Reykjavík hljóta það að vera tíðindi sem hæstv. byggðamálaráðherra ætti að skoða alvarlega í stað þess að telja verkefni hér og þar. Staðreyndirnar frá ríkisstjórninni sjálfri sýna að störfum ríkisins hefur fækkað í því kjördæmi sem hún vitnaði til, þ.e. í Norðvest., og hún ætti að horfa til þess í staðinn fyrir að telja upp einhver verkefni. (Forseti hringir.) Þetta er einmitt það sem vantar í byggðaumræðuna, að (Forseti hringir.) verið sé að ræða um hlutina eins og þeir eru. (Forseti hringir.)

(Forseti (JBjart): Forseti beinir því til hv. þingmanns að virða tímamörk í umræðunni.)