132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:11]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé samningsmál hvort menn veiða á stöng eða í net. Netaveiðin hefur látið undan síga og það er rétt, sem kemur fram í máli hv. þingmanns, að hún gefur ekki mikið af sér í dag, eins og var kannski fyrir nokkrum áratugum þegar netveiddur lax var mjög dýrmætur. Hann selst ekki dýru verði í dag. Flestir þeir sem eiga veiðirétt í net gera sér grein fyrir því að það er mikilvægt að hugsa um heildina og vatnasvæðið og efla þannig tekjur en þetta er sem sagt réttur jarðarinnar. Það þætti einkennilegt ef Íslendingar bönnuðu alla netaveiði í straumvatni og ég hef farið yfir það þess vegna að menn leggi ekki þann kostnað á ríkið að taka þau mannréttindi, þann eignarrétt, af mönnum með löggjöf.