132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:22]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega bind ég vonir við að dugleg landbúnaðarnefnd taki málið til skarprar meðferðar á þeim tíma sem eftir er enda hefur málið farið í margfalda vinnslu, bæði með þjóðinni og hagsmunaaðilum, og er unnið af mjög öflugum mönnum sem ég rakti hér nöfn á áðan, lagaprófessorum og fræðimönnum. Þannig að ég held að málið sé mjög vel unnið.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það kemur nokkuð seint fram. En kannski var það umræðan um Fiskræktarsjóðinn, sem hér hefur verið minnst á, sem tafði málið nokkuð í meðferð ríkisstjórnar og þingflokka stjórnarinnar.

En nú liggur það fyrir að Fiskræktarsjóðsmálið verður óbreytt sem lög og gjaldtakan óbreytt svo að okkur er ekkert að vanbúnaði að klára þessa miklu löggjöf ef tími vinnst til nú (Forseti hringir.) á vorþinginu.