132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:51]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefur Samfylkingin ekki afgreitt hverja grein málsins formlega en mun að sjálfsögðu ræða það á næstu dögum. En mín skoðun er sú að hér sé um að ræða eðlilega veiðarfærastýringu frekar en eignarnám.

Auðvitað hefur myndast einhvers konar hefðarréttur á netaveiðunum og þær eru partur af hlunnindum sem fylgt hafa jörðum lengi. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að ganga þannig fram í málinu að við þá bændur sem í gegnum tíðina hafa haft af þeim hagnað og ábata sé samið með sæmd og gengið fram af sanngirni gagnvart þeim, jafnvel þó að raunverulega sé um veiðarfærastýringu að ræða. Það er verið að setja eðlilegar og sanngjarnar hömlur á auðlindanýtinguna rétt eins og á auðlindina í hafinu.

Þó að okkur greini á um kvótakerfið og árangur af því o.s.frv. held ég að velflestir séu á því að það þurfi að stýra sókn í auðlind hafsins með einhverjum hætti. Margar leiðir koma til álita eins og 23 til 30 ára gömul deila Íslendinga um fiskveiðistjórnarkerfið ber með sér. Það er sjálfsagt, eins og hv. þm. Gunnar Örn Örlygsson kom að í sinni fyrirspurn, frekar og ekki síður um að ræða veiðarfærastýringu. Hann hefur skrifað mjög svo athyglisverðar og góðar greinar í Morgunblaðið og víðar um þetta mál og ég hlakkaði einmitt til að hlusta á hann fara yfir málið þar sem hann hefur sett sig vel inn í það.

En auðvitað kemur þetta alltaf inn á hefðina sem hefur skapast af nýtingu landeiganda á jörð sinni og þau hlunnindi sem hljótast af netaveiðunum þannig. En göngum fram af sanngirni og hófstillingu gagnvart landeigendum þó svo hér (Forseti hringir.) sé í raun og veru um að ræða veiðarfærastýringu.