132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:59]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkið á að borga reikninginn, segir Samfylkingin. Þá er eðlilegt að spyrja næstu spurningar og hún hljóðar svo: Hefur Samfylkingin látið gera einhverja úttekt á hversu hár sá kostnaður yrði sem mundi falla á ríkið, ef þessi leið yrði farin?

Nú er ég hvorki að mæla með henni né gegn henni. Mér leikur einungis forvitni á að vita, virðulegi forseti, hvaða fjárhæð við erum hér að tala um. Því það er eðlilega þannig að við, sem setjum lögin í þessu landi, hljótum að bera að nokkru leyti ábyrgð. Ef hér er um að ræða einhvern verulegan kostnað eða skuldbindingar fyrir ríkissjóð og ef Samfylkingin hefur gert sér grein fyrir því hversu há sú fjárhæð er þætti mér mikill akkur í að fá að heyra eitthvað um þær tölur áður en ég sest yfir áframhaldandi vinnslu þessa frumvarps í hv. landbúnaðarnefnd.