132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:28]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hlý orð í minn garð. Honum til upplýsingar vil ég nefna að á síðustu missirum hefur Stangveiðifélag Reykjavíkur reynt til þrautar að semja við veiðifélag Árnesinga um upptöku netanna og ekki í fyrsta skipti, þetta hefur verið reynt áratugum saman eins og menn þekkja. En það hefur ekkert gengið. Mér skilst að nú muni menn reyna þar á bæ að semja við einstaka bændur. Samkvæmt reglum Veiðifélags Árnesinga er því þannig háttað til að hver bóndi, hver landeigandi, getur ákveðið hvort hann stundar netaveiði eða stangveiði á sínu svæði og hann getur ákveðið sjálfur hvort hann nýtir veiðiréttinn til útleigu til stangveiða, útleigu til netaveiða eða bara veiðir hreinlega á stöng eða net sjálfur.

Það næsta sem gerist í þessum efnum er það að Stangveiðifélag Reykjavíkur mun reyna að semja við einstaka bændur en það er fullreynt með suma þeirra og m.a. er bær sem Jörundur Gauksson (Forseti hringir.) er frá, að ég held, sem — ég held að faðir hans hafi tekið þátt í að undirbúa þetta (Forseti hringir.) frumvarp, Gaukur Jörundsson. Það er bær þar sem enn þann dag í dag er veitt í net.

(Forseti (ÞBack): Enn vil ég áminna hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma.)