132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:32]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er athyglisvert að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur hvorugan þingflokk stjórnarflokkanna á bak við sig í málinu. Einhvers konar ringulreið virðist ríkja í þeim báðum gagnvart þessu máli. Hv. þingflokksformaður hans, Hjálmar Árnason, hefur lýst því að hann geri fyrirvara við þessa megingrein, 27. gr., sem tekur til netaveiðanna, og stór hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur afgreitt málið með fyrirvara um breytingartillögu sem gjörbreytir málinu og bannar fortakslaust eða takmarkar verulega netaveiði á laxi.

Það er sem sagt ekki samstaða um málið í stjórnarflokkunum samkvæmt þessu og ég fagna því mjög og eindregið þar sem netaveiðar á laxi í straumvötnum eru tímaskekkja. Þær eru algjör tímaskekkja og við eigum að sjálfsögðu að beita, eins og ég hef lýst hér áður í dag, öllu okkar afli til að ná sátt við þá sem í hlut eiga þannig að varanleg upptaka neta eigi sér stað ella setji Alþingi lög þar sem (Forseti hringir.) netaveiðarnar eru takmarkaðar mjög eða bannaðar.