132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:16]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð. Hann varpar hér fram tveimur spurningum. Hann spyr hvort ég telji að um veiðarfærastýringu eða eignarnám, sem mundi þá leiða til skaðabótaréttar fyrir landeigendur, sé að ræða verði gripið til þeirra aðgerða að banna samkvæmt lögum netaveiði í straumvatni. Ég hallast að þeirri niðurstöðu að á slíkar aðgerðir yrði litið sem eignarnám frekar en að um veiðarfærastýringu sé að ræða. Ég segi þetta með öllum fyrirvörum. En ég tel að grípi menn til slíkra aðgerða mundi það leiða til skaðabóta fyrir þá landeigendur sem fyrir því yrðu.

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan hafa veiðiréttindi verið talin ná til eignarréttar landeigenda allt frá því fyrstu reglur um þetta voru settar þegar Alþingi kom saman árið 930, hæstv. landbúnaðarráðherra. Og sjónarmið um eignarnám og útreikning skaðabóta mundu koma til skoðunar þar. Auðvitað yrði þetta tiltekna mál, Ásgarðsmálið, tekið þar til skoðunar og ég get ekki ímyndað mér annað en að þeir útreikningar sem þar voru lagðir til grundvallar ættu við í þessu máli. Ég mundi halda að það mál og þær forsendur sem rétturinn komst að þar yrðu fordæmisgefandi í slíkum málum.

En við mat skaðabóta snýst allt um það að meta hvert tjón landeiganda yrði og umfang þess þarf að meta. Það hefur Hæstiréttur gert í þessu máli (Forseti hringir.) og ég geri ráð fyrir að rétturinn mundi beita sömu forsendum í málum í framtíðinni ef gripið (Forseti hringir.) yrði til þessara aðgerða.