132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:30]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram fróðleg umræða, sem aðallega hefur snúist um 27. gr., að því er varðar hugsanlegar bætur fyrir veiðirétt.

Ég ætla að byrja á að lýsa minni skoðun í stuttu máli, afgreiða þennan þátt málsins að mínu leyti. Hvað varðar bótaréttinn í þessu máli má líta á 49. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

„Nú hafa lagaákvæði leitt til þess að veiði veiðieiganda skerðist verulega og að mun umfram aðra eigendur veiði í sama fiskihverfi, og á hann þá rétt til bóta úr ríkissjóði eftir mati.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Nú leiðir ákvörðun veiðifélags um veiði og friðun til þess að veiðieigandi verður að mun öðrum fremur fyrir tjóni og á hann þá rétt til bóta úr hendi annarra veiðieigenda á félagssvæðinu, á meðan sú ákvörðun gildir. Skulu bætur þessar vera árgjald sem ákveðið er með mati, ef ekki semur. Ákveða má þeim er tjón hefur beðið bætur með því að úthluta honum arði í arðskrá. Stjórn veiðifélags er skylt að annast innheimtu bóta á félagssvæðinu. Um ákvörðun bótafjárhæðar, greiðslu bóta og endurgjald, er greinir í lögum þessum, skal eftir því sem við á fara eftir lögum um framkvæmd eignarnáms.“

Ég held að maður verði að skilja þessa grein á þann veg, hæstv. forseti, að ef við setjum þessi lög þannig að þau banni netaveiðar á einhverju veiðisvæði, það verði sem sagt löggjafinn sem banni það, sé hugsanlegt, og talsverðar líkur leiddar að því í 49. gr. þessa frumvarps, að ríkissjóður verði bótaskyldur.

Ég tel hins vegar að það sé ekki hlutverk okkar hér í Alþingi að setja lögin með þeim hætti að ríkissjóður verði bótaskyldur. Við eigum að setja lögin og ganga þannig frá þeim að einhver kvöð sé sett um það að veiðiréttareigendur nái samningum innan einhvers ákveðins tíma og ef samningar hafa þá ekki tekist fari einhvers konar ferli af stað, einhvers konar sáttanefnd skipuð sem reyndi að leysa þessi mál, og málið fært í þann búning að til verði samningur milli þeirra sem land eiga að viðkomandi vatnasvæði um það hvernig veiðinýtingu á viðkomandi vatnasvæði verði breytt. Þar með er búið að setja málið í þann farveg, að mínu mati, að það verða jú þeir sem veiðiréttinn eiga og hafa ákveðið sameiginlega að breyta nýtingu hans sem munu þá greiða þeim bætur sem breyta veiðinotkun sinni, þ.e. taka upp net eða fækka þeim eða stytta veiðitímann eða hvernig sem menn semja um það í áföngum.

Með slíku vinnulagi fara menn þá leið að leysa þetta án bótaskyldu ríkissjóðs, enda finnst mér eðlilegt að þeir greiði til þessarar lausnar sem á henni munu hagnast. Ef eitthvað er að marka það að veiði sé svo mikil í net að hún hafi afgerandi áhrif á veiði í ánum þá hljóta þeir að hagnast sem við eiga að búa og til langrar framtíðar. Þar með setja menn auðvitað lögin í þann búning að stuðla megi að þessu án þess að ríkissjóður verði bótaskyldur. Við eigum ekki bara að reyna að koma á viðunandi réttlæti eða færa málin í þá átt sem við höldum að sé þjóðinni til gagns, við eigum líka að gæta þess að við lagasetningu séum við ekki að óþörfu að baka ríkissjóði fébótaábyrgð. Við þurfum að huga vel að því. Ég segi þetta til þess að landbúnaðarnefnd hafi það m.a. sem viðmið í þeirri yfirferð sem vissulega þarf á þessi lög.

Það er talað um það í þessu lagafrumvarpi að þetta sé nýting á veiðirétti en ekki er beinlínis verið að tala um að þetta sé nýting á ákveðnum fjölda fiska eða eitthvað slíkt. Það er hins vegar svo, virðulegi forseti, og ég vil koma því hér að og benda hv. landbúnaðarnefnd á það og einnig hæstv. ráðherra, að 1. gr., um markmið og gildissvið, kann að vera nokkuð villandi eins og hún er sett upp.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að kveða á um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra.“

Hér er markmiðum laganna lýst. Síðar í frumvarpinu er svo farið yfir ýmislegt sem snýr að veiði í sjó en það er alls ekki markmið þessara laga eins og því er lýst í 1. grein. Það er alls ekkert minnst á veiði í sjó í markmiðum laganna. Þess vegna held ég að markmiðsgreinin, eins og hún er upp sett, stangist að verulegu leyti á við efnisgreinar í lögunum að því er lýtur að veiðirétti í sjó. Það er m.a. eitt af því sem ég hef áhyggjur af varðandi þetta lagafrumvarp. Veiðiréttur almennings hefur löngum verið tryggður utan svokallaðra netlaga í vötnum þar sem almenningur mætti veiða. Stundum hefur það verið túlkað þannig, ef því hefur verið viðhaldið mjög stranglega, að eingöngu landeigendur við vatnið mættu veiða í þessum almenningi. Ég held að þeim rétti hafi ekki alltaf verið strangt fram haldið heldur hafi almenningur haft leyfi til þess að veiða í vötnum með sömu veiðitækjum og aðrir, þ.e. að undanskildu því að mega ekki draga á í almenningnum heldur t.d. nota stangir eða jafnvel netstúf með þá löglegum möskvum og öðru slíku og innan þess veiðitíma sem almenningi er heimilt að stunda silungsveiðar — ég er ekki að tala hér um laxveiðar — þ.e. frá þriðjudegi til föstudags, er það ekki rétt? (Gripið fram í: Jú.)

Þetta er eitt atriði sem ég hef áhyggjur af og mér finnst ekki að við þurfum að fara þá leið við þessa lagasetningu, sem ég held að sé að mörgu leyti ágæt og markmiðin í henni, að ganga frekar á rétt almennings til frjálsrar veiði eða útivistar en orðið er, ef ekki ber einhverja aðra nauðsyn til eins og t.d. það að menn séu að skemma eitthvað í lífríki vatnsins o.s.frv. Þá held ég að við eigum að láta almenning njóta þess réttar eins og frekast er kostur að fá að nýta sér þau takmörkuðu veiðiréttindi sem til hans geta heyrt. Ég tel að þetta eigi einnig að eiga við varðandi veiðirétt almennings í sjó, þ.e. að fólk megi leggja silunganet í sjó sem sé löglega gert með löglegum möskvum og eigendamerkt eins og er í dag og standist þær heimildir að vera löglega lagt, þ.e. í ákveðinni fjarlægð frá árós, 1.500 metrar held ég að það séu í dag. Hér er lagt til að það verði 2.000 metrar. Ég segi alveg eins og er að ég sé enga ástæðu til að vera að þoka þessari vegalengd upp hægt og rólega. Einu sinni voru þetta 700 metrar og núna erum við að fara í 2.000 metra markið. Ef fjórir kílómetrar eru á milli tveggja árósa er sem sagt ekki hægt að leggja þar net.

Ég held að við eigum að gæta þess að ganga ekki endalaust á rétt almennings að því er varðar að fá að veiða sér fisk til matar í almenningum þó að almenningur verði auðvitað að hlíta þeim reglum að veiða ekki við árósa o.s.frv. eða nær ám en verið hefur. Ég tel að það sé varhugavert af okkur og algjörlega óþarft að vera að ganga á rétt almennings með því sífellt að teygja út þau bönn sem snúa að almenningi að þessu leyti. Ég hef reyndar ekki séð nein rök fyrir því í þessu frumvarpi að þetta skuli gert. Það er jú öllum ljóst að það er bannað að veiða lax í sjó. Reyndar er sá bannréttur svo víðtækur að mönnum er sagt að henda laxi í sjó ef hann kemur í net, hvort sem hann er dauður eða lifandi, eins og lögin eru og reyndar eins og þetta frumvarp er. Það er út af fyrir sig ákveðinn tvískinnungur í því, finnst mér, að skikka menn til að henda dauðum afla í sjóinn til þess að selurinn þrífist betur, sem er jú mesti óvinur silungsins og laxins og mjög stórtækur þar sem hann heldur sig við árósa inni á flóum og fjörðum.

Annað í þessu lagafrumvarpi vil ég gera að umtalsefni, ég held að aðrir hafi nú ekki minnst mikið á það, en það er hin nýja Landbúnaðarstofnun og eftirlitsmannakerfið. Mér sýnist því miður — og vil ég beina orðum mínum sérstaklega til hv. formanns landbúnaðarnefndar, Drífu Hjartardóttur — að hér sé verið að fara af stað með nýja Fiskistofu. Þegar Fiskistofa var sett á fyrir áratugum síðan talaði þáv. ráðherra, Þorsteinn Pálsson, um það að Fiskistofa yrði aldrei meira en svona 10–11 manna vinnustaður, aldrei meira. Í þessu frumvarpi er víða um að ræða nokkurs konar sjálfdæmi hjá Landbúnaðarstofnun, hvernig hún stendur að verki.

Það segir m.a. í 58. gr., með leyfi forseta:

„Landbúnaðarstofnun er heimilt að skipa eftirlitsmenn með því að bann við laxveiðum í sjó sé virt. Kostnaður við störf þeirra greiðist úr ríkissjóði.“

Hvergi er minnst á það að þessi kostnaður komi neins staðar annars staðar frá, hann á bara að bætast á kostnað ríkisins. Ríkissjóður á að borga án þess að fá neinar tekjur sem beinlínis eru markaðar í þennan kostnað. Auðvitað fær ríkissjóður hellingstekjur af stangveiðinni og ferðamennskan nýtur góðs af því að stangveiðin skuli standa fólki til boða þannig að ég er ekki að gera lítið úr því. Ég er bara að benda á að við höfum áður sett á fót svona stofnanir og eftirlit og sjálfdæmi stofnana um það hvernig þær framkvæma eftirlitið og það hefur leitt til þess að stofnanirnar hafa stækkað.

Auðvitað breytast aðstæður og lagaumhverfi sífellt þannig að það er eðlilegt að stofnanir svari því hvaða þörf þær telja fyrir eftirlitið, en mér sýnist að Landbúnaðarstofnun fái hér ansi frítt spil.

Það segir síðan, með leyfi forseta:

„Landbúnaðarstofnun gefur út skírteini handa eftirlitsmönnum.

Eftirlitsmenn skulu eiga frjálsa för um veiðivatn“ o.s.frv., o.s.frv.

Fremst í þessari grein, 58. gr., stendur:

„Landbúnaðarstofnun skipar eftirlitsmenn með veiði samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði þar sem þurfa þykir …“

Hér er stofnuninni fengið ansi mikið sjálfstæði um það hvernig hún muni þróa þetta eftirlit. Við megum heldur ekki gleyma því að í frumvarpinu er talað um að Landhelgisgæslan geti einnig komið að eftirlitinu. Það hefur hún vissulega gert á undanförnum árum. Ég vil vara við því, hæstv. forseti, að við setjum alls staðar af stað eftirlitsþætti í þessum málum og hugleiðum það vandlega við setningu þessara laga.

Varðandi matsnefndina er einnig sett af stað apparat sem snýr að matsreglunum. Þar segir að ráðherra ákveði tímagjald matsmanna og starfsemi nefndarinnar. Laun og annar kostnaður af starfsemi matsnefndar greiðist af fjárveitingu á fjárlögum. Ég vil benda á þetta, hæstv. ráðherra, vegna þess að mér finnst að sumu leyti laus taumur gefinn í sjálftöku. Ég spyr því hvort sérstaklega hafi verið hugað að þessu, annars vegar hvað varðar eftirlitsmennina og hins vegar nefndi ég núna skipun matsnefndarinnar. Síðan á Landbúnaðarstofnun, ef ég hef tekið rétt eftir, að skrá öll veiðivötn á landinu, halda yfir þau sérstaka skrá.

Í lögunum eins og þau eru nú segir í 14. gr., með leyfi forseta:

„Veiði lax og göngusilungs í sjó skal hlíta sömu reglum sem veiði í ósöltu vatni eftir því sem unnt er. Ráðherra setur reglur um þessa veiði.“

Og nú spyr ég hvort þær hafi þá ekki verið settar. Í 13. gr. gildandi laga segir, með leyfi forseta:

„Veiðimálastjóra er heimilt að fyrirskipa, að hver sá, sem kaupir lax eða silung, veiddan innan lands, til sölu innan lands eða utan, og svo gistihús, matsöluhús, sjúkrahús og þess háttar stofnanir, er kaupa þessa vöru, skuli á mánuði hverjum gefa skýrslu um þessi kaup. Veiðimálastjóri setur nánari reglur um slíka skýrslugerð.“

Þetta er í núgildandi lögum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur þetta virkilega verið unnið svona? Hefur þetta verið framkvæmt? Ef það hefur verið gert þá eru til mjög litlar upplýsingar um ýmislegt sem snýr að veiði og veiðiálagi. Það væri fróðlegt að heyra svör hæstv. ráðherra við þessum spurningum.

Þetta vildi ég, hæstv. forseti, sérstaklega nefna í þessum málum. Það eru að vísu tvö smáatriði kannski, og þó, sem ég ætla að nefna hér að lokum varðandi frumvarpið. Í orðskýringunum er í 23. lið talað um háflæði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mesta rennsli eða hækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og þegar auð er jörð.“

Ég hef alltaf skilið orðið háflæði þannig að það væri háflæði sjávar. Ég hef aldrei heyrt þessa orðskýringu á orðinu háflæði. Það er talað um háflæði og lágflæði, flóð eða fjöru. Ég bendi á þetta vegna þess að ég tel að við þurfum að skoða það vandlega þegar við gefum orðum, sem eru tiltæk í íslenskri tungu, nýja merkingu.

Um orðið sjávarfiskur segir, með leyfi forseta:

„Fiskur sem lifir allan sinn lífsferil í sjó.“

Miklar breytingar eru nú að verða á landi og í sjó, það er að hlýna. Nýlega sótti okkur heim fiskur sem virðist vera sestur að í vötnum hér á landi og heitir ósaflúra. Hún sækir upp í ár en lifir að öðru leyti og hrygnir úti í sjó. Ég er ekki viss um að áðurnefnd skilgreining standist alveg.