132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:50]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir ágæta ræðu. Ég er um margt sammála hv. þingmanni í því sem kom fram í ræðu hans. Hann sagði að ef netaveiðar yrðu bannaðar yrðu þeir sem hefðu ávinning af slíkri aðgerð að greiða þann kostnað sem bótagreiðslur til bænda hefðu í för með sér. Ég tek hjartanlega undir það með hv. þingmanni.

Í þessu ljósi vil ég líka nefna að það er vert að skoða hver ávinningurinn er og hverra hann er. Ávinningurinn felst fyrst og fremst í því, eins og margítrekað hefur komið fram í ræðum þingmanna í dag, að verðmæti stangveidds lax er miklu meira en netveidds lax. Netveiddur lax er metinn á 750 kr. á meðan lax veiddur á stöng er metinn á 20.000 kr. Gefur það því augaleið að ef netaveiðar yrðu bannaðar með lögum mundu tekjur ríkissjóðs hreinlega aukast.

Hingað koma þúsundir erlendra veiðimanna á hverju ári, kaupa sér veiðileyfi í ám og kaupa sér flugmiða, borða á veitingastöðum, borga fyrir leiðsögn o.s.frv. Það liggur því í augum uppi að ríkið hefði meðal annarra mikinn ávinning af því að netaveiðar yrðu stöðvaðar. Það er því kannski eðlilegt að ríkið taki einhvern þátt í greiðslum til bænda ef netaveiðar verða bannaðar.

Í viðtali við Morgunblaðið á dögunum kom fram í máli formanns Stangveiðifélags Reykjavíkur, sem er greinilega hagsmunaaðili og talar fyrir samtökum sem eru að reyna að semja við bændur, að það félag er til að mynda beinlínis tilbúið að hafa hönd í bagga með ríkissjóði við greiðslu bóta ef til þess kemur. (Forseti hringir.) Í því ljósi vil ég spyrja hv. þingmann hvort lagasetning komi ekki til greina við að banna (Forseti hringir.) netaveiðar ef hagsmunaaðilar taka þátt í að greiða kostnaðinn niður.