132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:54]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur í augum uppi, samkvæmt skýrslu sem Atvinnuþróunarfélag Suðurlands sendi frá sér, um efnahagslegan ávinning af stangveiði og netaveiði, að ríkissjóður mun hagnast á breytingum af þessu tagi. Tekjur til ríkissjóðs munu aukast ef netaveiðin verður bönnuð með lögum.

Ferðaþjónustan tekur kipp. Ný sóknarfæri skapast í uppbyggingu á öflugum og gullfallegum bergvatnsám sem renna þarna í jökulvatnið. Nægir að nefna Tungufljótið þar sem menn eru tilbúnir í mikið átak ef netaveiðin leggst af. En ávinningurinn er auðvitað enginn meðan netaveiðin er stunduð. Það fer enginn heilvita maður af stað í slíkar framkvæmdir nema netin fari upp. Menn fara ekki út í öflugt ræktunarátak, gerð sleppitjarna og frekari uppbyggingu ef laxarnir sem síðar eiga að ganga í ána lenda í netum bænda neðar í jökulvatninu.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann sammála mér um að ríkið eigi þá alla vega að greiða hluta af þessu þar sem ávinningurinn er augljós fyrir ríkið? Algjörlega augljós fyrir ríkið.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á það, sem kom reyndar fram í ræðu minni fyrr í dag, að teljast verður fullreynt að semja við ákveðna bændur á vatnasviði Ölfusár og Hvítár þar sem þetta er greinilega ekkert peningamál fyrir þá. Þeim hafa verið boðnar 9 millj. kr. fyrir að taka netin upp þó svo tekjur af netaveiðinni hafi einungis verið 4,5 millj. kr. á síðasta ári. En fyrir Suðurland og nærliggjandi byggðir við stærsta og víðfeðmasta vatnasvæði landsins er um stórt atvinnu- og byggðamál að ræða.

Það kom fram hér í ræðu minni fyrr í dag að veltan í stangveiðiiðnaðinum er á bilinu 7,8–9,1 milljarður kr. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki mikilvægt að löggjafinn reyni að beita sér fyrir því að þetta mikilvæga mál, sem ég vil nefna atvinnu- og byggðamál, nái fram að ganga hér á löggjafarþinginu.