132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:56]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta sé að mörgu leyti mjög mikilvægt mál. Það yrði enn mikilvægara ef hægt væri að lenda því í sátt. Ég mundi ekki vilja standa að því fordæmi fyrir dómstólum að menn hefðu komið sérstakri bótaskyldu vegna veiðiréttar yfir á ríkið. Ég held að það gæti komið víða annars staðar niður en eingöngu í þeim lögum sem við ræðum nú og ef ég veit rétt það sem snýr að þessu eina vatnasvæði á Suðurlandi.

En það fordæmi, ef af yrði, gæti hins vegar haft verulegar afleiðingar síðar meir ef menn þyrftu að grípa til og vildu breyta t.d. lögum um stjórn fiskveiða. Ég hallast ekki að því að við sem alþingismenn eigum að taka nokkra einustu áhættu um að búa til slíkt bótaréttarfordæmi á ríkisfé.