132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[19:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum mikinn lagabálk sem er frumvarp til laga um lax- og silungsveiði. Það frumvarp, ásamt með nokkrum öðrum frumvörpum, tekur eiginlega yfir öll ákvæði núgildandi laga um lax- og silungsveiði.

Hér hefur mikið verið rætt um veiðifélög og það er vissulega umræðuvert hvort hægt sé að skylda menn til að ganga í félög. Þetta er reyndar gert á nokkrum stöðum og má sem dæmi nefna húsfélög og lögmannafélagið o.fl., en það er andstætt stjórnarskránni og menn þurfa að fara varlega í það. En það er ákveðin skynsemi í því að skylda menn til að ganga í veiðifélag og má svo sem segja að skynsemin eigi að ráða því.

Hér er lagt til að atkvæðisrétturinn sé einn á hvert býli óháð því hve mikla hagsmuni menn hafa. Það er mjög ankannalegt. Ég held að menn þurfi að skoða það í nefndinni hvort það fái virkilega staðist að einstaklingur sem á smábleðil af á geti stjórnað jafnmiklu og annar sem á meginhluta árinnar báðum megin.

Síðan gerast dálítið skrýtnir hlutir. Maður sem á land báðum megin ár þarf t.d. að líða það að ókunnugt fólk labbi yfir landið hans og veiði. Jafnvel þó að hann sé dýraverndarsinni og þyki vænt um silunginn og laxinn, vilji ekki láta deyða þessar skepnur eða raska ró þeirra, verður hann að gera svo vel að hlíta því að menn gangi yfir hans land og geri það sem honum er þvert um geð — að ekki sé talað um það sem sumir telja ónáttúru að veiða fisk og sleppa honum því það er eðli veiða að ná í bráðina. Já, einmitt að drepa hana. Það er óeðli, að mati margra, að veiða fisk og sleppa honum, það minnir svolítið á minkinn sem veiðir tuttugu hænur og étur eina.

Við ræðum það hér hvernig við getum dýpkað eignarréttinn þannig að hámarksskynsemi og -nýting náist fyrir þjóðfélagið í heild. Bent hefur verið á það að á Suðurlandi, við Ölfusársvæðið skilst mér, séu menn að veiða í net og vegna þess detti engum í hug að rækta silung ofar á vatnasvæðinu — netaveiðimaðurinn mundi veiða allan fiskinn sem hinir væru að rækta upp eða eitthvað slíkt. Við getum borið þetta saman við það að ekki væri eignarréttur á landi. Enginn myndi setja niður kartöflur ef einhver annar gæti komið og hirt uppskeruna. Þetta er ástæðan fyrir því að menn eru með einkaeignarrétt og þetta kom inn í frumvarpið sem við ræddum um daginn um vatnsréttindi. Það nýtir enginn vatnið ef hann á það á hættu að einhver annar taki það frá honum sem hann er búinn að leggja í það.

Svo geta menn lent í þeim vanda að þeir sem eiga netaréttinn neiti að taka upp netin, alveg sama hvað er í boði. Hætt er við að öll skynsemi rjúki út í veður og vind og eftir standi einhver trúarbrögð um það að menn ætli ekki að taka upp netin alveg sama hvað í boði er og þá er öll skynsemi farin. Þá kemur upp sú krafa að banna þetta með lögum, sem ég er eindregið á móti. Í fyrsta lagi er ég á móti því vegna þess að ég tel óeðlilegt að skattgreiðendur borgi bætur þegar aðrir, einkaaðilar, fá hagnaðinn. Ég er líka á móti því að beita einstaklinga bolabrögðum fyrir utan það að margir aðrir, eins og bent hefur verið á, mundu lenda í því að mega ekki leggja niður net þar sem ekki er hægt að veiða silunginn hvort sem er með öðrum ráðum.

Ég vil stinga upp á því að veiðifélögin, þessi skrýtnu veiðifélög, fái eignarnámsheimild og þá kannski með fulltingi einhvers opinbers aðila. Ég sting upp á því að hv. landbúnaðarnefnd, sem fær málið væntanlega til umsagnar, skoði það að veiðifélögin — þau eru hvort sem er svo skrýtin, þau eru þarna með félagaskyldu, þau eru með ráðstöfunarrétt á eignum manna — fái líka heimild til að taka eignarnámi en greiði þá bæturnar sem þurfa að koma fyrir. Þá erum við komin í þá stöðu sem menn óska eftir en einungis í mjög afmörkuðum tilfellum og það mætti gera það þannig að þau þurfi til þess fulltingi opinbers aðila — fari fram á að farið verði í eignarnám og fái svo til þess fulltingi opinbers aðila. Þá erum við búin að leysa þann vanda sem við höfum verið að tala um í dag. Og svo komi eðlilegar bætur fyrir.

Ef maður skoðar öll þessi frumvörp sem við höfum verið að ræða í dag og athugar hvaða kaflar og hvaða greinar eru teknar upp úr lögum um lax- og silungsveiði, sem eiga víst að heita eftir allar breytingarnar eldri lög um lax- og silungsveiði, standa eftir í þeim lögum allir kaflar af því að greinarnar eru teknar út og allar skýringar við kafla en allir kaflarnir tómir. I. kafli um orðskýringar, II. kafli um veiðirétt o.s.frv. Þetta stæði eftir. Svo standa eftir 94., 98. og 99. gr. og svo 100. gr. sem er tóm. Þessar greinar fjalla um veiðimálanefndir og um Fiskræktarsjóð sem er sérstakt áhugamál mitt, frú forseti, og ég ætla að eyða örfáum orðum í það.

Þar er nefnilega, eins og ég hef getið um oft áður, lagður skattur af hendi ríkisins á vatnsaflsstöðvar sem rennur til einstaklinga og félagasamtaka, ekki til opinberra aðila. Ég held að það fái hreinlega ekki staðist. Þess vegna er þetta skilið eftir í lögunum um lax- og silungsveiði og ekki hróflað við því vegna þess að menn vilja ekki rugga þeim bát, vilja ekki gera það að umræðuefni að verið sé að brjóta stjórnarskrána með því að leggja á skatt sem rennur til einstaklinga og félagasamtaka.

Það er líka mjög undarlegt að leggja skatt á Kárahnjúkavirkjun. Mér er ekki kunnugt um að ein einasta padda sé þar í vatninu uppi á háfjöllum. Það getur varla verið mikill skaði fyrir fiskrækt í landinu eða lax- og silungsveiðina að verið sé að virkja við Kárahnjúka. Ég vildi benda á það, frú forseti, að þarna sitja eftir örlitlar greinar um Fiskræktarsjóð og heitir þá eldri lög um lax- og silungsveiði.