132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[20:32]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara fá að koma hér upp til að ítreka að í ræðu minni áðan var ég að tala um nýtingarréttinn, þ.e. rétt fólksins í landinu til að nýta sínar náttúruauðlindir. Það er mikill munur á nýtingarrétti og síðan eignarrétti. Við í Frjálslynda flokknum viljum berjast fyrir því að fólkið í landinu haldi nýtingarréttinum, það fái að nýta sínar náttúruauðlindir, til að mynda fiskstofnana í kringum landið.

Hér erum við að tala um afnot, nýtingarrétt á ferskvatnsfiski, nýtingarrétt á laxi sem gengur upp ár í gegnum lendur bænda og bændur hafa um margra áratuga skeið nýtt sér þennan fisk til tekjuöflunar. Mér finnst að við eigum að virða þann rétt. Ef fólk vill halda í þennan rétt á það að fá að gera það, það á ekki að vera hlutverk ríkisvaldsins að taka hann af fólki. Ef það vill hins vegar leigja þennan rétt frá sér með einhverjum hætti þá á það líka að vera þeirra eigin ákvörðun að gera slíkt og þá í samningum við þá sem hafa áhuga á því að leigja hann. Flóknara er það nú ekki. Þetta er grundvallarafstaða sem ég tek í þessu máli og á þessu byggist viðhorf mitt til þessarar greinar í frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði. Á því byggist andstaða mín við það að við setjum lög sem banna alfarið netaveiðar á laxi í straumvatni.

Mig langar að nota síðustu sekúnduna til að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Ef sett yrðu lög sem banna veiðar af þessu tagi, hver ætti þá að greiða hugsanlegar skaðabætur til bænda vegna þess að þessi réttur yrði tekinn af þeim?