132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[20:36]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur að því hvort banna eigi þessar veiðar. Við hljótum að velta fyrir okkur í því sambandi hver ávinningurinn sé. Eru einhver fiskifræðileg rök fyrir því að banna eigi þessar veiðar? Er verið að ofveiða þessa laxastofna þar sem netaveiðar eru stundaðar? Sjáum við einhver merki um það? Nei, ég hef hvergi rekist á fullyrðingar um það að laxinn sem er á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár sé ofveiddur með einum eða neinum hætti, hvergi. Þannig að það eru engar fiskifræðilegar röksemdir fyrir því að gera þetta.

Þá eru það efnahagslegu röksemdirnar. Höfum við efnahagslegar röksemdir? Kannski. En þá vil ég aftur benda á skýrsluna sem ég vitnaði í áðan en hún var skrifuð af tveimur sérfræðingum Veiðimálastofnunar. Þeir benda á að net hafi verið tekin upp í Hvítá í Borgarfirði og það hafi skilað 28–35% veiðiaukningu í þverám hennar, 39–52% af þeim fiski sem áður veiddist í netin veiddust eftir það á stöng. Síðan færa þessir líffræðingar rök fyrir því að sennilega yrði þetta hlutfall enn þá lægra á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár vegna þess að vatnið þar er gruggugra en á vatnasvæði Hvítár í Borgarfirði. Við erum þá sennilega ekki að tala um veiðiaukningu nema kannski í mesta lagi upp á 600–750 laxa á hverju ári ef við miðum við 3.000 netaveidda laxa árlega. Hinn efnahagslegi ávinningur er kannski ekki svo mikill.

Öðrum þræði er hér um að ræða tilfinningamál sem síðan er að hluta til pískað upp af þingmönnum sem eru í einhvers konar herferð í lýðskrumi og vitleysisgangi og reyna að æsa fólk upp gegn bændum sem hafa stundað nýtingu á þessum náttúruauðlindum um margra áratuga skeið, og mér finnst þetta ekki sérstaklega fallegur leikur.