132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[20:38]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur alls enga innstæðu til að ásaka mig um það að ráðast sérstaklega gegn netaveiðibændum. (MÞH: Ég var ekki að tala um þig.) Ég hef sjálfur stundað netaveiði í sjó sem ungur drengur og margoft fór ég líka til netaveiða í Hvítá í Borgarfirði með frændum mínum í Ferjukoti sem rækt hafa það starf áratugum saman.

Hv. þingmaður sagði sjálfur að efnahagslegu rökin kynnu að vera fyrir hendi. Ég þekki það ekki jafn vel og hann vegna þess að ég hef ekkert kafað ofan í þetta og ég hef ekki reynt að halda fram rökum á þeim grundvelli. Ég hef heldur vísað til ákveðinnar alþjóðlegrar þróunar um stærð stofnanna og líka til alþjóðlegra samninga.

Hv. þingmaður sagði að það væru ekki fiskifræðileg rök fyrir því. Hann er sá þingmaður í þessum sal sem gerst ætti kannski að vita það fyrir utan náttúrlega hæstv. landbúnaðarráðherra. Þó er það þannig að sérstakt straumkerfi var áður á Íslandi fyrir stórlaxa. Stórlaxastofnarnir hafa verið á miklu örara undanhaldi en smávaxnari laxastofnar. Veiðimálastofnun hefur bent á það margsinnis að ástand stórlaxastofna hérlendis sé orðið uggvænlegt þannig að það er alveg ljóst að fiskifræðileg rök hljóta að vera fyrir því að grípa til allra ráða til að koma í veg fyrir að stórlaxinum okkar, sem sums staðar hefur verið einkenni heilla héraða, verði útrýmt. En það liggur við borð núna og er ekki langt síðan það var sérstakt umfjöllunarefni í fjölmiðlum.

Að lokum, frú forseti: Ég er hugsjónamaður á þessu sviði. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að stefna að því að leggja netaveiðar af. Hvort það gerist hratt eða með einhvers konar samningaþófi — ég vil bara að það verði gert í fyllingu tímans.