132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[20:48]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er athyglisvert að röksemdir þeirra hv. þingmanna sem hafa talað hér sem mest gegn netaveiði í straumvötnum styðjast að mestu leyti við vatnasvæði einnar ár eða eitt vatnasvæði á Suðurlandi, þ.e. vatnasvæði Hvítár og Ölfusár. Það kemur fram í fylgiskjali við frumvarpið að árið 2003 veiddust rúmlega 3.000 laxar í net í þessum tveimur ám, Hvítá og Ölfusá, og það sama eða lítt meira, 3.600 laxar tæplega, í Þjórsá. En í öllum öðrum ám sem taldar eru upp á landinu er um minni háttar veiði að ræða, það sem næst kemur eru 400 laxar. Af þessum gögnum að dæma er aðeins um lítils háttar hagsmuni fyrir laxveiðimenn að ræða ef bannað verður að veiða í net á viðkomandi vatnasvæðum en hins vegar er, eins og ég kom að í fyrri ræðu minni, verið að taka réttinn af bændum til að veiða sér jafnvel í matinn nema þá á stöng sem oft er ógerlegt. Telur hv. þingmaður ekki að það beri að meta að einhverju þá heimild og þann rétt sem viðkomandi bændur hafa til að veiða sér til matar laxfiska úr straumvötnum sem renna í gegnum lönd þeirra, jafnframt því sem við höfum þann möguleika að semja um að netalagnir verði teknar upp þar sem stórir hagsmunir gætu verið í húfi fyrir laxveiðimenn?