132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[20:51]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því að það er mjög nauðsynlegt að öll sjónarmið komi upp á borðið. Það er mjög nauðsynlegt en mér finnst varhugavert að túlka hagsmuni um land allt út frá þeim hugsanlegu hagsmunum sem kunna að vera fyrir hendi á Suðurlandi og mér finnst það hafa verið allt of áberandi í umræðunni. Það má segja að aðeins hafi verið nefnt eitt annað landsvæði, þ.e. á norðausturhorninu þar sem veiðiárnar í Vopnafirði eiga í hlut. Að öðru leyti hefur alltaf verið talað um Suðurlandið.

Þær ár sem taldar eru upp á bls. 92 í fylgiskjali með lagafrumvarpinu eru með frá 3 löxum upp í 408 og ein er með 272 laxa en allar hinar árnar eru talsvert undir 100 löxum á þessu ári sem skila sér á land í net. Á þessum svæðum öllum er því ekki um tiltakanlega mikla hagsmuni að ræða, virðist vera, í það minnsta þarf örugglega að koma upp mikið ræktunarstarf. Mín skoðun er sú að það geti verið vel þess virði að leggja í ræktunarstarf og þá með samtökum veiðibænda við þessar tilteknu ár en jafnframt verður þá líka að gæta að því að afraksturinn sé ekki hirtur upp í sjó eins og ég hef grun um að sé í vissum tilfellum.