132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[21:03]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil við lok umræðu um þetta frumvarp þakka þá miklu og löngu umræðu sem hér hefur orðið, hún hefur verið málefnaleg og skýr. Menn hafa tekist á um grundvallaratriði og komið víða við. Um síðustu ræðuna, sem hv. þm. Magnús Þór flutti, vil ég segja að það að taka net upp með löggjöf — niðurstöður þeirra manna sem hafa samið þetta frumvarp, sem margir hverjir eru mjög þekktir lögmenn, fræðimenn og prófessorar, eru þær að það yrði mjög stórt bótamál sem sneri að eignarrétti jarða. Þegar ég rökstuddi mitt mál sagði ég eitthvað á þá leið að ég vildi leiðrétta þann misskilning að veiðiréttur í net byggðist á hefð. Hið rétta er að í íslenskri löggjöf hafa verið ákvæði um veiði allt frá stofnun Alþingis. Í Grágásarlögum þjóðveldisins kom meginregla landeigenda fram og ég taldi að hún hljóðaði eitthvað á þessa leið:

„Hver maður á veiði alla fugla og fiska í landi sínu.“

Í Jónsbók var og svipað ákvæði og er þetta því mjög sterkur veiðiréttur. Það kom líka vel fram í máli hv. þingmanns að ef þetta yrði sett í löggjöf þá er ekki eingöngu um að ræða bótaréttinn gagnvart þeim fáu jörðum sem enn hafa ekki tekið netin upp og ekki nást samningar við heldur er einnig um að ræða allar þær veiðijarðir sem hafa með samningum tekið upp net sín. Veiðiréttur jarðarinnar er þá farinn og þá skipta þeir eigendur jarða í sjálfu sér engu máli um vatnsauðlindina á sínu svæði og þess vegna munu þeir gera ríkulegan bótarétt gagnvart sínum veiðirétti. Þetta er því átakamál sem ég held að menn eigi ekki að tala um af gáleysi. Menn verða að líta þennan rétt öðrum augum og átta sig á því að þingið verður að fara að sinni stjórnarskrá og virða hana.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom víðar við í ræðu sinni. Það er rétt sem hann sagði að við þurfum alltaf lög og reglur til að vernda stofna og skipa málum með ákveðnum hætti. Hann minntist á margt gott, hann hafði það í flimtingum að landbúnaðarráðherra þyrfti að útskýra það að vatnið rynni niður á við. Sem betur fer rennur nú vatnið ekki alltaf niður á við. Ef allt vatn rynni alltaf niður á við væri það löngu farið norður og niður. Sem betur fer fer helmingurinn af vatninu upp á við, það gufar upp og kemur svo aftur í skýjabólstrum og rignir til jarðarinnar þannig að vatnið leitar nú margra leiða en það fer yfirleitt auðveldustu leiðina og er magnaðasta efni sem við mennirnir og jörðin lifum af.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði um hlaup úr Hagavatni á Ölfusár- og Hvítársvæðinu, að það raskaði mjög því svæði gagnvart seiðabúskap og öðru og svæðið hefur í rauninni ekki beðið þess bætur síðan. Ég minnist þess að ég var við Hvítá á þeim árum að veiða og það er skelfilegasta sjón sem maður hefur séð, kolmórautt vatnið sem rann til sjávar, fiskurinn fór með löndum, særður á nefi og illa farinn, laxinn, breytti um göngur í ánni þannig að það er enginn vafi að þetta vatnasvæði hefur enn ekki náð sér eftir það mikla áfall sem þar varð.

Já, hæstv. forseti, eignarréttur bænda og nýtingarréttur er auðvitað það stærsta í þessu máli. Hv. þm. Pétur Blöndal hélt hér mikla ræðu. Ég var ekki sammála honum í öllu. Hann er mjög á móti því að vatnsaflsstöðvar verði að borga þau 3 prómill til Fiskræktarsjóðs sem verið hefur. Nú vill svo til t.d. að Fiskræktarsjóðurinn er þannig byggður að þar koma 3 prómill frá raforkunni. Af 13–14 milljarða veltu Landsvirkjunar borga þeir nú um 10 millj. kr. til þessa og bændurnir borga svo einnig í þennan sjóð af sinni veiði.

Nú vilja menn deila um hvort þetta sé skattur. Auðvitað er þetta ekkert skattur. Þetta er gjald til náttúrunnar sem, eins og ég sagði hér í dag, Norðmenn og Svíar hafa tekið upp og margir fleiri. Hver er munurinn á gjaldi og skatti? Skattur er framlag til ríkisins, gjald er t.d. félagsgjald, greiðsla o.s.frv. Íslensk málstöð skilgreinir greiðslu Landsvirkjunar í Fiskræktarsjóð sem gjald og auðvitað er það gjald til náttúrunnar. Svo geta menn deilt um það t.d. að þeir greiða af Blönduvirkjun eða Kárahnjúkavirkjun og menn segja: Það var engu fórnað þar. En þá er þetta heildargjald sem ekki er hátt. Stundum er miklu fórnað, stundum er minna fórnað þannig að þetta er jafnaðargjald sem fellur á og er, eins og allir sjá, sanngjarnt gjald og lítið gjald og kemur til náttúrunnar. Mér finnst að þeir sem sannarlega hafa — eins og gerst hefur við okkar virkjanir, okkar breytingar á farvegum, við minntumst hér á urriðann í Þingvallavatni o.s.frv. — haft áhrif á þessar auðlindir, náttúruna, með gjörðum sínum greiði fyrir það gjald. Þess vegna held ég að við eigum ekki að deila um það heldur reyna að ná samkomulagi um þessi atriði.

Ég verð að segja fyrir mig að mér hefur fundist þessi umræða hér í dag mjög góð og sérstaklega er hún skemmtileg þegar menn tala frá hjarta sínu, línur skarast innan flokka og milli flokka og það hefur komið glöggt fram að það eru ólík sjónarmið innan flokkanna og varúðarsjónarmið hjá öðrum, svolítið áberandi úr öllum flokkum að menn vilja einhverjir taka netin upp með löggjöf en aðrir andmæla því. Ég held að ég verði að taka undir það sem hér kom fram í máli hv. þm., og sagði það reyndar í minni ræðu, Önnu Kristínar Gunnarsdóttur að fleira væru gæði en peningar. Þar hittir hún naglann á höfuðið, það eru fleiri gæði til en peningar. Sannleikurinn er sá að það eru tilfinningar í kringum þetta sem ráða miklu, hefðir, fólk sem lítur á þennan rétt sem auðlind fyrir sig af því að það hefur verið stundað í aldir með þessum hætti. Sem betur fer eru ekki allir, og það hefur komið fram hjá mörgum fleirum, sem sjá þetta bara út frá beinum peningum og segja: Þetta er reiknanlegt dæmi, það er enginn gróði af þessu o.s.frv. Þessi sjónarmið eiga öll rétt á sér hér í þessari umræðu.

Það hefur komið glöggt fram hjá hv. þingmönnum að stangveiðifélög þessa lands hafa flestar ár undir stangveiði. Þau hafa gert samninga við veiðifélög og jarðeigendur um allt land og hafa sem betur fer þessa auðlind, hafa staðið sig vel í því, stangveiðifélögin og einstaklingar sem hafa náð samningum um veiðiárnar, og þetta er dýrmæt eign jarðanna og landsbyggðarinnar sem líka skilar þjóðfélaginu mjög miklu. Ég held því að menn verði bara að una því að þar sem enn þá eru net þar verða menn að ná samningum, eins og ég gat um hér á þessu eina svæði sem ekki enn hefur verið samið um, Hvítár- og Ölfusársvæðinu, Þjórsársvæðinu, — þó er það svo að þegar ég horfi út um gluggann minn sé ég stangveiðimenn standa við ána og veiða á stöng. Svo sé ég handan árinnar netið í Kötlunni. Þess vegna er það svona alls staðar með ánni að mjög víða er stangveiði að taka við af netaveiðinni og það eru örfáar jarðir sem enn stunda þessa fornu netaveiði og menn líta á það sem sinn rétt og þeir verða að fá að semja um það eins og aðrir hafa gert.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki hér við lok umræðunnar að lengja hana frekar. Ég vil bara sérstaklega hér í lokin þakka fyrir mjög málefnalega umræðu sem hefur spannað mjög vítt svið hvað þessa auðlind varðar. Ég trúi því að þingið og hv. landbúnaðarnefnd muni vinna þetta mál mjög vel því að þetta er mikilvæg löggjöf. Ég hef lagt mörg ár í þessa vinnu með færustu mönnum og reynt að ná um hana samstöðu og að því hafa komið bæði hagsmunaaðilar og ekkert síður áhugamenn og áhugamannafélög sem hafa sent inn skriflegar athugasemdir við frumvarpið og á þeirra rök hefur verið hlustað. Ég hygg að þessi mál sem ég er hér að leggja fyrir þingið séu á margan hátt einstaklega vel unnin hvað það atriði varðar. Þess vegna vona ég að þau verði auðveldari í landbúnaðarnefndinni og að um þau muni nást fyrir rest mikil samstaða sem grundvallast á því að öll viljum við varðveita þá miklu auðlind sem laxveiðiárnar og veiðin á Íslandi er. Ég trúi því að sett verði mjög römm og góð heildarlöggjöf um lax- og silungsveiði á því þingi sem nú situr.