132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Eldi vatnafiska.

595. mál
[21:15]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 879, sem er 595. mál þessa þings, en um er að ræða frumvarp til laga um eldi vatnafiska. Frumvarp þetta er eitt fjögurra fylgifrumvarpa með frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði.

Ákvæði um fiskeldi, og að sínu leyti hafbeit, hafa verið í lögum um langa hríð. Ákvæði IX. kafla gildandi laga um lax- og silungsveiði eru að hluta grundvölluð á endurskoðun sem fram fór á árinu 1994, sbr. lög nr. 63/1994, en í meginatriðum er þó um endurskoðun að ræða sem fram fór á árinu 2001, sbr. lög nr. 83/2001. Með tilliti til þess hve skammur tími er liðinn frá þeirri endurskoðun þykja ekki efni til neinnar umbyltingar reglna IX. kafla gildandi laga. Að ósk stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva voru ákvæði um hafbeit tekin út úr frumvarpi þessu og er hafbeit nú skipað í frumvarp til laga um fiskrækt. Þess skal getið að nánast engar hafbeitarstöðvar eru nú starfandi og ekki fyrirsjáanlegt að til starfrækslu fleiri stöðva verði stofnað á komandi árum.

Í frumvarpinu eru í I. kafla ákvæði um markmið, gildissvið og skilgreiningar, í II. kafla er fjallað um stjórnsýslu samkvæmt lögum, í III. kafla eru ákvæði um skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis til fiskeldis. Þá eru í IV. kafla ákvæði um starfrækslu fiskeldisstöðva, í V. kafla er fjallað um niðurfellingu rekstrarleyfis. Loks eru í VI.–VIII. kafla ýmis almenn ákvæði.

Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar með frumvarpinu og athugasemda með því.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.