132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Varnir gegn fisksjúkdómum.

596. mál
[21:29]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur nú verið vitað hér í þinginu og um það verið sett löggjöf að fiskeldið býr hér við gríðarlega stranga löggjöf og strangar reglur, bæði út frá þeirri miklu auðlind sem minnst var á í máli hv. þingmanns, laxinum í laxveiðiánum, og ég minnist þess að sú löggjöf hefur vakið athygli víða um heim. Við lokuðum stórum svæðum landsins út frá þessum hagsmunum fyrir fiskeldi sem aldrei yrði leyft í nánd við þau vatnasvæði þar sem dýrmætasta auðlindin í laxinum er.

En hitt er alveg ljóst að um skaðabótaskylduna gilda auðvitað meginreglur í skaðabótarétti og eftir þeim ber að fara, þannig að í þessum starfsreglum sem fiskeldið býr auðvitað við þá tryggir það sig oft og hefur tryggt sig fyrir tjóni sem það getur valdið þriðja aðila o.s.frv. Gáleysi væri náttúrlega mjög alvarlegt en ég hygg að þeir sem hér hafa stundað fiskeldi, sem reyndar er nú því miður að dragast verulega saman, og þær tilraunir sem hafa verið gerðar hafa ekki gefið góða raun og margar aðrar ástæður reyndar komið til. Ég verð að segja fyrir mig að ég kaus það sem landbúnaðarráðherra að ef fiskeldið færi ofan í firðina, og þingið var því samála, þá yrði það mjög ströng löggjöf, strangar reglur, sem því yrðu settar til þess að vernda laxinn í laxveiðiánum.