132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Varnir gegn fisksjúkdómum.

596. mál
[21:31]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sennilega er það rétt að hér hafi verið strangar reglur. Ég hygg að það megi kannski þakka að einhverju leyti miklu og góðu aðhaldi sem hæstv. landbúnaðarráðherra fékk á sínum tíma, ekki bara frá eigin samherjum í pólitík heldur líka stjórnarandstöðunni. Við skulum ekki gleyma því að það var mikill þrýstingur fyrir ekkert mörgum árum að fá að stunda sjókvíaeldi á laxi í fjörðum nánast allt umhverfis landið en sem betur fer tók ráðherra þá ákvörðun að banna eldi í sjókvíum mjög víða og fyrir það skal hann hafa fullan heiður í dag. Ég ætla ekki að draga neina (Gripið fram í: … pungapróf núna?) fjöður yfir það. Kannski hefur þetta einmitt forðað okkur frá því að verða fyrir skakkaföllum af völdum sjúkdóma sem hefðu hugsanlega getað borist í okkar dýrmætu laxveiðiár frá eldisfiski sem hefði þá verið til að mynda í sjókvíum í grennd við mjög verðmætar laxveiðiár. Ég held nefnilega, og það endurspeglast kannski svolítið í umræðunni hér í dag og það er sennilega orðið mjög víðtækt í vitund landsmanna, að laxveiðiárnar okkar séu mjög dýrmæt auðlind. Það er alveg sama hvernig á það er litið, þetta er mjög dýrmæt auðlind. Þær miklu og góðu gleðifréttir sem við höfum fengið núna um að veiðin sé að stóraukast hlýtur náttúrlega að veita okkur stóraukin sóknarfæri.

Á sama tíma höfum við séð að fiskeldið, þessi önnur bylgja laxeldis, sjókvíaeldis, hér við land virðist vera að fara forgörðum. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn ætla ég ekkert að gráta neitt yfir því. Eins og ég segi, þó að ég sé sjálfur háskólamenntaður fiskeldisfræðingur er ég andvígur sjókvíaeldi á laxi við strendur landsins. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég er alveg sammála því að nú skuli vera sett í lög (Forseti hringir.) þessi skaðabótaákvæði sem ég hef hér vakið athygli á.